Höfðar mál gegn FME

Arctica Finance hefur ákveðið að höfða mál gegn Fjármálaeftirlitinu.
Arctica Finance hefur ákveðið að höfða mál gegn Fjármálaeftirlitinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjármálafyrirtækið Arctica Finance hefur ákveðið að höfða mál gegn Fjármálaeftirlitinu vegna þeirrar ákvörðunar stofnunarinnar að leggja 72 milljóna króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið vegna brota þess gegn lögum um fjármálafyrirtæki og reglum um kaupaukakerfi sem settar voru árið 2011.

Telur stofnunin að fyrirtækið hafi brotið gegn fyrrnefndum lögum með því að hafa greitt starfsfólki sínu kaupauka í formi arðs af svokölluðum B, C og D hlutum í félaginu á árabilinu 2012-2017.

Artctica Finance hefur brugðist við úrskurði FME og í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að það uni ekki niðurstöðu stofnunarinnar. Er fyrirtækið ósammála þeirri túlkun FME að arðgreiðslurnar feli í sér kaupauka í skilningi laga. Af þeim sökum hyggist fyrirtækið höfða mál gegn stofnuninni.

Í tilkynningu sem Arctica hefur sent frá sér segir m.a.: „Arðgreiðslur til hluthafa samkvæmt fyrirfram ákveðinni arðgreiðslustefnu eru á engan hátt tengdar vinnuframlagi einstakra starfsmanna og geta að mati Arctica ekki talist kaupaukagreiðslur í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, líkt og FME heldur fram í ákvörðun sinni.“

Ætlað að koma í veg fyrir óhóflega áhættu

Í niðurstöðu FME segir að við ákvörðun sektarfjárhæðar hafi verið litið til þess markmiðs sem reglur um kaupaauka á vettvangi fjármálafyrirtækja sé ætlað að ná fram en það er m.a. að koma í veg fyrir óhóflega áhættu í starfsemi þeirra með áhrifum á fjármálastöðugleika og almenning.

„Þá var horft til þess að brotin ná yfir sex ára tímabil, að stór hluti starfsmanna naut kaupaaukagreiðslnanna, að kaupaukarnir voru bundnir við árangur þeirrar deildar sem viðkomandi starfsmaður starfaði í, að kaupaukarnir voru í sumum tilvikum margföld föst laun viðkomandi starfsmanns og að regluverði félagsins var greiddur kaupauki.“

Í fyrrnefndri tilkynningu Arctica Finance hefur sent frá sér segir að FME hafi allt frá stofnun Arctica Finance árið 2009 verið upplýst um eignarhald félagsins, arðgreiðslustefnu þess og útgreiddan arð „án þess að athugasemdir hafi komið fram af hálfu FME“ um þá tilhögun. Þá bendir fyrirtækið á að félagið greiði hófleg en sanngjörn laun en að þeir starfsmenn sem eigi hlut í félaginu njóti arðs af fjárfestingu sinni í þeim aðstæðum þegar skilyrði fyrir útgreiðslu arðs séu uppfyllt. Fyrirtækið segist því undrandi á ákvörðun FME og að það sé niðurstöðu málsins „eindregið ósammála“ og að auk þess byggi hún á óskýrum lagaheimildum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK