Íbúðaverð hækkar um 12% á næsta ári

Íbúðaverð mun að jafnaði hækka um tæplega 12% á næsta ári og 5% árið 2019 gangi spá Íslandsbanka eftir. Undir lok spátímans eru horfur á að framboð á nýju húsnæði verði loks komið í takt við eftirspurn.

Þetta kemur fram í nýrri húsnæðisskýrslu Íslandsbanka. Þar er meðal annars fjallað um að veðsetningarhlutfall einstaklinga með íbúðaskuldir hafi verið rúmlega 42% síðustu áramót og hafi nánast helmingast frá árinu 2010. Bæði hafi skuldir lækkað og íbúðaverð hækkað, sem leiði af sér lækkandi veðsetningarhlutfall heimilanna. 

„Í síðustu uppsveiflu hækkaði veðsetningarhlutfall íbúða þrátt fyrir miklar íbúðaverðshækkanir. Bendir það til þess að verðhækkanir íbúða hafi verið drifnar áfram af skuldsetningu í mun meiri mæli í síðustu uppsveiflu en í þessari.“

Spáir Greining Íslandsbanka 27% vexti í íbúðafjárfestingu í ár, 20% vexti á næsta ári og 12% vexti árið 2019. Undir lok spátímans er talið að framboð á nýju húsnæði verði loks komið í takt við eftirspurn.

Í skýrslunni kemur fram að raunverð íbúða sé hæst í Vesturbænum og Hlíðunum, þar sem það sé um 14% hærra en sögulegt hámark. Raunverð íbúða í miðbænum sé einnig 10% umfram sögulegt hámark en raunverð íbúða í Garðabæ sé lægst allra hverfa á höfuðborgarsvæðinu í sögulegu samhengi.

Enn fremur segir í skýrslunni að raunverð íbúða hafi aldrei verið hærra í Reykjavík, Kópavogi og í Hafnarfirði. Það hafi hins vegar ekki náð sögulegu hámarki á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ og í Garðabæ.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir