Losa fyrirtæki við margar flækjur

Jón Björgvin Stefánsson, Valur Þór Gunnarsson og Bjarki Heiðar Ingason.
Jón Björgvin Stefánsson, Valur Þór Gunnarsson og Bjarki Heiðar Ingason. mbl.is/​Hari

Valur Þór Gunnarsson fékk hugmynd að nýrri lausn þegar hann þurfti, fyrr á þessu ári, að skipta um fjarskiptafélag og tryggingafélag. „Fyrirtækin sem ég vildi versla við voru með flottar vefsíður og gátu boðið mér upp á góðar vörur, en svo byrjaði leiðinlega upplifunin þegar ég reyndi að klára ferlið við að komast í viðskipti hjá þeim. Þá lendi ég á þessum kunnuglega vegg þar sem það að stofna til viðskiptasambands kallar á að fylla út alls kyns eyðublöð, hringja mörg símtöl og svara mörgum tölvupóstum. Þetta er upplifun sem ætti einmitt að vera ánægjuleg og áreynslulaus,“ segir hann.

Valur beið ekki boðanna heldur stofnaði sprotafyrirtækið Taktikal (www.taktikal.is) með félögum sínum Jóni Björgvini Stefánssyni og Birgi Þór Gylfasyni. Þeir tóku þátt í keppninni um Gulleggið á dögunum og höfnuðu í þriðja sæti.

Taktikal er að þróa kerfi sem samanstendur af stöðluðum einingum sem nota má til að einfalda og sjálfvirknivæða alla þá ferla sem ljúka þarf við til að stofna til viðskiptasambands. Valur segir þessa þjónustu einkum gagnast smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem hafa ekki burði til að smíða þann hugbúnað sem þarf til að gera stofnun viðskiptasambands sem einfaldasta. Gæti þannig kerfi, ef það væri smíðað frá grunni, kostað margar milljónir og jafnvel tugi milljóna króna. „Í dag eru mörg fyrirtæki hreinlega að „feika“ þetta ferli, og mikil handavinna á sér stað á bak við tjöldin þegar nýjum viðskiptavini er bætt við. Tölvupóstar ganga manna á milli og jafnvel heilu deildirnar sem fást við það að slá inn handvirkt upplýsingar í hin ýmsu kerfi í hvert skipti sem nýr viðskiptavinur bætist við eða ákveður að kaupa nýja þjónustu. Ferlið allt getur jafnvel tekið nokkra daga, en með okkar hugbúnaði á að vera hægt að stofna til viðskiptasambands á tveimur mínútum og viðskiptavinurinn á aldrei að þurfa að opna annan glugga eða forrit í tölvunni sinni eða símanum.“

Fyrirhöfnin gerir viðskiptavininn óánægðan

Valur bendir á að ekki aðeins geti fyrirtæki hagrætt töluvert í rekstri sínum með því að sjálfvirknivæða ferlið, heldur eru þau líka að búa til hamingjusama viðskiptavini. „Vandaðar rannsóknir sýna að ánægja viðskiptavina minnkar um helming bara við það eitt að skipta um samskiptaleið, s.s. að fara úr tölvupósti yfir í síma. Það er ekki góð byrjun á viðskiptasambandi ef fyrstu skrefin kalla á mikla fyrirhöfn.“ Lög og reglugerðir gera líka æ strangari kröfur um að ýmiss konar formskilyrðum sé fullnægt, s.s. að viðskiptavinurinn auðkenni sig með viðunandi hætti þegar stofnað er til viðskipta. Valur nefnir að margir kannist við að hafa hálfpartinn þurft að falsa eigin undirskrift á rafrænum umsóknareyðublöðum, með því að opna myndvinnsluforrit og splæsa teikningu af undirskriftinni inn á skjalið áður en það er sent til baka. Slíkar lausnir eru ekki aðeins tímafrekar heldur leikur líka vafi á því hvort undirskriftin telst gild og eru mun betri leiðir í boði. „Ekki nóg með það heldur verða reglurnar sífellt strangari um meðferð persónuupplýsinga og skapar það vissa rekstraráhættu ef tölvupóstar með þannig gögnum eru sendir hingað og þangað.“

Hafa fjármagnað sig sjálfir

Auk þess að stefna að því að selja hugbúnaðarlausnir sínar sem áskriftarþjónustu veitir Taktikal fyrirtækjum ráðgjöf á þessu sviði og aðstoðar við innleiðingu hugbúnaðarins. Ráðgjafarþjónustan hefur gert Taktikal fært að fjármagna reksturinn án þess að þurfa að leita til fjárfesta eða sjóða. „Á næstunni mun okkar fyrsti viðskiptavinur taka beta-útgáfu af hugbúnaðinum í notkun og í framhaldinu fer að verða tímabært að tala við fjárfesta til að geta látið fyrirtækið vaxa hraðar,“ segir Valur og bætir við að þegar góð reynsla verður komin á Taktikal á Íslandi verði ekki erfitt að laga lausnina að erlendum mörkuðum. „Við smíði kerfisins gættum við þess að það geti uppfyllt allar kröfur Evrópusambandsins, sem eru um leið þær ströngustu í heiminum þegar kemur að öryggi gagna og persónuvernd. Á næstu mánuðum munum við fá mikilvægar úttektir og vottanir til að staðfesta að þessum kröfum sé fullnægt.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK