Hrakfarirnar þjöppuðu hópnum saman

„Þrátt fyrir gríðarlega neikvæða umfjöllun hefur okkur tekist að halda uppi góðum starfsanda,“ segir Kristleifur Andrésson, mannauðsstjóri hjá United Silicon. Langflestir starfsmenn fyrirtækisins hafa haldið störfum áfram eftir að það fór í greiðslustöðvun. 

Mikið hefur farið fyrir United Silicon í fjölmiðlum síðustu mánuði. Þegar ljósbogaofn kísilversins í Helguvík var gangsettur í vor barst fjöldi kvartana vegna mengunar og ákvað Umhverfisstofnun í kjölfarið að stöðva starfsemina. 

Félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar í ágúst fram til síðustu desember vegna rekstrarerfiðleika og hefur sú heimild verið framlengd til 12. janúar svo að unnt sé að finna fyrirtækinu farveg. Enn er unnið að tillögum um endurbætur á kísilverinu til að draga úr mengun.

Þá hafa Arion banki og nokkrir lífeyrissjóðir legið undir gagnrýni fyrir að hafa lagt fyrirtækinu til háar fjárhæðir. Var nýlega greint frá því að lífeyrissjóðirnir hefðu ráðið lög­mann til að gæta hags­muna sinna gagn­vart fyr­ir­tæk­inu og þeim sem for­göngu höfðu um verk­efnið. Sjóðirn­ir eru Frjálsi, Festa og Eft­ir­launa­sjóður FÍA.

„Þegar umfjöllun um fyrirtækið sem þú vinnur hjá er mjög neikvæð er erfitt að halda uppi starfsanda og gleði í fólkinu. Það hefur tekist þrátt fyrir þessa neikvæðu umfjöllun. Okkar fólk á hrós skilið fyrir það hvernig það hefur brugðist við þessum erfiðleikum,“ segir Kristleifur. 

Langflestir urðu um kyrrt

Kristleifur segir vel hafi tekist að þjappa starfsmönnum saman og að þeir séu einbeittir í því að koma fyrirtækinu á legg. Það endurspeglist í því að fyrirtækinu hafi tekist að halda í megnið af starfsfólkinu. 

„Þú þarft ekki hálfa aðra hönd til að telja þá sem hafa sagt upp. Það eru þá starfsmenn sem hafa verið að breyta um búsetu og annað slíkt.“

Spurður hvað starfsfólk hafi tekið sér fyrir hendur eftir að slökkt var á ofninum segir Kristleifur að það hafi gengist undir ýmis konar þjálfun í tengslum við verkferla, vinnuvélar og eldvarnir svo fátt eitt sé nefnt. Auk þess hafi það unnið við tiltekt og endurbætur. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir