5,6 milljarða sölusamdráttur hjá Högum

Hagar högnuðust um 1,9 milljarða á tímabilinu, en talsverður sölusamdráttur ...
Hagar högnuðust um 1,9 milljarða á tímabilinu, en talsverður sölusamdráttur var þó hjá samstæðunni. mbl.is/Eggert

Smásölufyrirtækið Hagar hagnaðist um 1,93 milljarða á þriðja ársfjórðungi rekstrarárs félagsins sem lauk í lok nóvember. Vörusala á fyrstu níu mánuðum rekstrarársins, sem hefst í mars, var 54,1 milljarður samanborið við 59,6 milljarða á sama tímabili árið áður. Sölusamdrátturinn nemur því tæplega 5,6 milljörðum króna, eða 9,4%. Sé tekið mið af aflagðri starfsemi er samdrátturinn 5,2%.

Framlegð á ársfjórðunginum nam 24,8% en eigið fé félagsins var 18,4 milljarðar og eiginfjárhlutfall 61,3%. Heildareignir Haga nema 30,06 milljörðum og var handbært fé félagsins 232 milljónir í lok tímabilsins.

Á fyrstu níu mánuðum rekstrarárs félagsins (frá mars til loka nóvember) var verslun Debenhams í Smáralind lokað. Þá var Korpuoutlet, Útilífi Glæsibæ og matvöruhluta Hagkaups Holtagörðum einnig lokað. Verslun Hagkaups á efri hæð Kringlunnar var einnig lokað og tískuverslunum í Smáralind og Kringlu.

Samkvæmt ársfjórðungsuppgjörinu er sölusamdráttur í matvöruverslunum samstæðunnar 7,3% en magnminnkun er upp á 2,9%. Hefur viðskiptavinum fækkað um 0,6% á tímabilinu í matvöruverslunum, en þegar tekið er tillit til aflagðrar starfsemi er fjölgun viðskiptavina 1,6%.

Framlegð félagsins var 13.393 milljónir króna, samanborið við 14.867 milljónir króna árið áður eða 24,8% framlegð samanborið við 24,9% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild lækkar um 80 milljónir króna milli ára en kostnaðarhlutfallið hækkar úr 17,5% í 19,2%. Launakostnaður hefur hækkað um 5,5% milli ára en annar rekstrarkostnaður hefur lækkað um 8,2%.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að nú sé lokið við miklar breytingar sem hafi verið ráðist í. Þar á meðal stækkun Bónuss á Smáratorgi um 700 fermetra, endurbætur á Hagkaup í Kringlu og þá hafa verslanir Zöru í Smáralind og Kringlu verið sameinaðar í eina verslun á tveimur hæðum í Smáralind.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir