Tryggja sér raforku frá Hvalárvirkjun

Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, og Einar Sveinn Ólafsson, nýfjárfestingastjóri ...
Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, og Einar Sveinn Ólafsson, nýfjárfestingastjóri Marigot á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Vesturverk og Marigot hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup á allt að átta megavöttum af raforku í tengslum við fyrirhugaða kalkþörungaverksmiðju Marigot í Súðavík. Búist er við að verskmiðjan skapi 30 störf. 

Marigot er eigandi Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal við Arnarfjörð. Fyrirtækið ráðgerir að reisa verksmiðju í Súðavík sem vinna mun kalkþörunga úr Ísafjarðardjúpi og er áætlað að gangsetja verksmiðjuna árið 2020. Þegar verksmiðjan verður komin í fullan rekstur munu um 30 manns starfa við hana.

Viljayfirlýsingin lýtur að því að fyrirtækið kaupi raforku til verksmiðjunnar af Vesturverki í framhaldi af mögulegri uppbyggingu Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á Ströndum. Þegar verksmiðjan hefur náð fullum afköstum verður aflþörf hennar átta megavött.

Í viljayfirlýsingunni kemur fram að endanlegt samningsverð muni m.a. ákvarðast af kostnaðarverði framleiddrar orku í Hvalárvirkjun og verður það í samhengi við markaðsaðstæður á þeim tíma sem verksmiðjan tekur til starfa, að því gefnu að uppbygging Hvalárvirkjunar verði tryggð. Gildistími samnings verður 10 ár frá gangsetningu verksmiðjunnar.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir