Markaðshlutdeildin aukist jafnt og þétt

Jónína Freydís Jóhannesdóttir, lyfjafræðingur og annar eigenda Akureyrarapóteks.
Jónína Freydís Jóhannesdóttir, lyfjafræðingur og annar eigenda Akureyrarapóteks. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Jónína Freydís Jóhannesdóttir er annar eigenda Akureyrarapóteks. Hún segir fyrirtækið varkárt í rekstri og að þau leggi ákaflega mikið upp úr að veita persónulega og góða þjónustu.

Hvað stendur upp úr á síðasta ári?

„Við erum í rótgróinni starfsemi sem við þekkjum orðið mjög vel og hlutirnir ganga nokkuð sjálfkrafa hjá okkur. Við erum ekki að finna upp hjólið en reynum að passa upp á að viðhalda því vel,“ segir hún.

Hverju þakkið þið helst árangurinn á síðasta ári?

„Við höfum hægt og rólega verið að byggja upp okkar litla fyrirtæki, tekið lítil skref í einu og þannig leyft umfanginu að aukast svo að segja af sjálfu sér. Eigendur vinna dagleg störf í fyrirtækinu ásamt góðu starfsfólki og við erum þannig vel vakandi yfir daglegum rekstri,“ segir Jónína.

Hver er þróun á ákveðnum lykiltölum á árinu?

„Markaðshlutdeild hefur aukist jafnt og þétt alveg frá stofnun fyrirtækisins. Reksturinn er samt að ná ákveðnu jafnvægi. Við erum trúlega ferkar varkár að eðlisfari og það endurspeglast í okkar áherslum í rekstrinum.“

Hvað verður á döfinni á þessu ári?

„Við sjáum ekki endilega fram á miklar breytingar á okkar markaðsumhverfi. Við reynum að halda fókus í okkar rekstri og erum á tánum til að vera fljót að bregðast við hinu óvænta,“ segir hún.

Með hvaða hætti aðgreinið þið ykkur í samkeppnisumhverfinu?

„Við erum sjálfstætt lítið fyrirtæki og okkar viðskiptamenn hafa gott, beint aðgengi að rekstraraðilum. Við erum heimagróið fyrirtæki með sterk vina- og fjölskyldutengsl víða um bæinn. Við leggjum ákaflega mikið upp úr að veita persónulega og góða þjónustu,“ segir Jónína að lokum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK