Greiða upp Magma-skuldabréfið

mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýir eigendur móðurfélags Magma Energy Sweden hafa greitt upp skuldabréf sem var gefið út í tengslum við kaup fyrirtækisins á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku hf. árið 2009. Lokagreiðslan nam um 39 milljónum bandaríkjadala, sem svara til tæplega fjögurra milljarða króna og var á gjalddaga í apríl 2018.

Skuldabréfsins hefur verið getið sem áhættuþáttar í Fjármálaskýrslum OR. Í tilkynningu frá OR kemur fram að með uppgreiðslunni hafi þeirri áhættu verið eytt.

Skulda­bréfið, sem var gefið út af Magma Energy Sweden A/​B árið 2009, var hluti greiðslu fyr­ir hlut OR í HS Orku, sem seld­ur var eft­ir að sam­keppn­is­yf­ir­völd settu eign­ar­haldi OR í fyr­ir­tæk­inu skorður. Á bak við bréfið stend­ur veð í hluta­bréf­um í HS Orku.

Sumarið 2013 var ákveðið að taka tilboði fjármálafyrirtækisins Landsbréfa í skuldabréfið en tilboðið féll úr gildi eftir að Landsbréfum mistókst að fjármagna kaupin í tæka tíð. 

Tveimur árum síðar náðu Orku­veit­an og Magma Energy Sweden sam­komu­lagi um breytt­ar af­borg­an­ir á skulda­bréfi sem gjald­falla átti í einu lagi í des­em­ber 2016. Samið var um að helm­ing­ur fjár­hæðar bréfs­ins yrði greidd­ur við staðfest­ingu sam­komu­lags­ins og hinn helm­ing­ur á fyrri hluta árs 2018.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir