Heimavellir í Kauphöllina í lok mars

Mynd/Heimavellir

Fasteignafélagið Heimavellir hagnaðist um 2,7 milljarða króna á árinu 2017 samanborið við 2,2 milljarða árið áður en leigutekjur félagsins tvöfölduðust á tímabilinu. Það stefnir á skráningu í Kauphöll Íslands um mánaðamót mars og apríl. 

Leigutekjur á árinu 2017 námu 3.096 milljónum króna og ríflega tvöfölduðust frá fyrra ári þegar þær voru 1.495 milljónir. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 1.622 milljónum króna og jókst um 967 milljónir á milli ára. Matsbreyting fjárfestingareigna nam 3.845 milljónum.

Rekstrarhagnaður félagsins á árinu 2017 var 2.716 milljónir króna í samanburði við 2.217 milljónir króna árið áður. Virði fjárfestingareigna í árslok 2017 var 53.618 milljónir króna sem er aukning um 12.914 milljónir á milli ára.

Eigið fé var 17.587 milljónir lok síðasta árs og var eiginfjárhlutfall félagsins 31,4%. Vaxtaberandi skuldir námu 34.938 milljónum. 

Í tilkynningu um uppgjörið segir að félagið hafi tryggt sér kaup á um 340 íbúðum sem koma í rekstur á þessu og næsta ári og að stefnt sé að skráningu félagsins í Kauphöll Íslands um mánaðamót mars og apríl. 

Áhersla á íbúðir fyrir eldri borgara

Við erum markvisst að byggja upp leigumarkað þar sem fólk getur reitt sig á örugga langtímaleigu eins og þekkist í nágrannalöndum okkar. Þannig viljum við stuðla að fjölbreyttari og stöðugri húsnæðismarkaði á Íslandi,“ er haft eftir Guðbrandi Sigurðssyni framkvæmdastjóra í tilkynningunni. 

„Áherslur félagsins verða þar sem þörfin er mest, þar á meðal íbúðir fyrir eldri borgara, en við erum einnig að skoða leiðir til að koma á markað litlum hagkvæmum leiguíbúðum sem mikil þörf er fyrir um þessar mundir.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir