Iceland Travel valið menntafyrirtæki ársins

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, afhenti ...
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, afhenti verðlaunin. Ljósmynd/Aðsend

Iceland Travel var valið menntafyrirtæki ársins 2018 á hinum árlega Menntadegi atvinnulífsins sem var haldinn í Hörpu í dag. 

Iceland Travel er ferðaskrifstofa í móttöku erlendra ferðamanna og stefnir ársveltan í 14 milljarða. Farþegar sem koma til Íslands á vegum Iceland Travel eru eitt hundrað og fimmtíu þúsund. Átta af hverjum tíu starfsmanna fyrirtækisins hafa lokið háskólaprófi, flestir af viðskipta-, ferðamála- eða tungumálabrautum. 

„Fræðslustarf okkar hefur verið rekið undir merkjum Iceland Travel-skólans. Þar hafa fjölmargir utanaðkomandi sérfræðingar á sínu sviði kennt námskeið og haldið fyrirlestra. Skólinn hefur einnig verið góður vettvangur fyrir starfsfólk að miðla af þekkingu sinni og reynslu,“ segir Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Iceland Travel.

Ljósmynd/Aðsend

Landsnet var valið menntasproti ársins 2018. Landsnet vinnur með Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Rafiðnaðarskólanum og nemendum býðst að vinna hagnýt lokaverkefni sem nýtast samfélaginu. Þá tekur fyrirtækið þátt í mikilvægum erlendum rannsóknarverkefnum, til dæmis stærsta rannsóknarverkefni sinnar tegundar í heiminum sem kostar um 14 milljónir evra og miðar að því að auka áreiðanleika flutningskerfa á sama tíma og kostnaði samfélagsins er haldið í lágmarki.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni undirfélaga Samtaka atvinnulífsins. Í dómnefnd sátu Guðný B. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, Sigurður Steinn Einarsson aðstoðarmaður forstjóra hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað og Ragnheiður H. Magnúsdóttir, viðskiptastjóri hjá Marel.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir