Tíu stærstu eiga 75% af markaðinum

Tíu stærstu fyrirtækin á bílaleigumarkaðinum eiga um 75% af öllum þeim bílum sem eru í bílaleiguflotanum og 20 stærstu fyrirtækin eiga um 88% af bílaleiguflotanum. Restin skiptist á hendur margra minni aðila. 

Þetta kemur fram í greiningu Ergo, fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka. Samkvæmt greiningunni hélt bílaleigumarkaðurinn áfram að vaxa árið 2017 og var fjöldi bílaleigubíla um 25.000 yfir hásumarið 2017. Aukning frá sumrinu 2016 var um 20% en á sama tíma jókst ferðamannafjöldi um rúm 24%. 

Bílaleiguflotinn hefur fimmfaldað sig að stærð frá árinu 2007 og er nú að nálgast það að nema um 10% af heildarbílaflota landsins. 

Fjöldi bílaleigufyrirtækja jókst einnig og fyrirtæki stækkuðu. Á síðasta ári voru um 113 rekstraraðilar á markaðinum samanborið við 104 árið áður. Þar af voru 42 skráðir með 50 bíla eða fleiri í rekstri og er það næstum tvöföldin frá árinu 2014 þegar aðeins 23 fyrirtæki féllu undir þessa stærðarflokkun. 

Þá hélt bílaleiguflotinn áfram að yngjast á síðasta ári og var 68% hlutfall bílanna af 2016 og 2017 árgerð, og 92% flotans 5 ára gamlir bílar eða yngri. Litlar breytingar urðu á samsetningu flotans að öðru leyti, til dæmis með tilliti til tegundaskiptingar og annars, og áfram var skipting milli orkugjafa sú sama og undanfarin ár – eða bensín 54%, dísel 45% og aðrir orkugjafar aðeins 1%.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir