Stór hluti í Völku skiptir um hendur

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og framtakssjóðurinn Frumtak hafa selt samtals 37% hlut sinn í hátæknifyrirtækinu Völku sem starfar á sviði sjávarútvegs. Samhliða sölunni var hlutafé félagsins aukið.

Helgi Hjálmarsson, stofnandi félagsins, segir í samtali við Morgunblaðið að kaupendurnir og þeir sem tóku þátt í hlutafjáraukningunni hafi þegar verið í hluthafahóp félagsins. Þeirra á meðal sé Vortindur, félag á hans vegum, Fossar í eigu Sigurbjörns Þorkelssonar, Vogabakki í eigu Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar, Vindhamar, félag á vegum Kára Guðjóns Hallgrímssonar auk núverandi og fyrrverandi starfsmanna.

„Við stefnum á yfir 50% vöxt í ár,“ segir hann. Í fyrra hafi verið óverulegur vöxtur á milli ára en árið 2016 hafi tekjur aukist um 38% á milli ára. Tekjur Völku námu 1,2 milljörðum króna árið 2016. Hagnaðurinn nam 58 milljónum króna það ár samanborið við 21 milljónar króna tap árið áður.

„Fjárfestingin var mjög góð fyrir sjóðinn,“ segir Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðsins, í samtali við Morgunblaðið en hún er bundin trúnaði um söluverðið. „Þetta var gott dæmi um það hvernig Nýsköpunarsjóðurinn getur stutt við flott fyrirtæki, fengið ávöxtun á sitt fé og getur vonandi nýtt það til að fjárfesta aftur.“ Nýsköpunarsjóðurinn hóf að fjárfesta í félaginu árið 2008 og Frumtak árið 2011.

Fyrirtækið var stofnað árið 2003 í bílskúr Helga Hjálmarssonar framkvæmdastjóra Völku. Starfsmenn eru um sextíu manns og viðskiptavinir eru víða um heim. Hluthafar voru 22 í árslok 2016.

Helgi segir í tilkynningu aðkomu nýsköpunarsjóðanna beggja hafa skipt sköpun fyrir vaxtarmöguleika fyrirtækisins á miklu uppbyggingartímabili

Nýsköpunarsjóður er ekki á fjárlögum frá ríkinu og þarf því að ávaxta sitt pund til að geta fjárfest í sprotum. Að sögn Huldar var sjóðurinn nokkuð stór hluthafi í GreenQloud og seldi hlutinn í fyrra með ágætum hagnaði. Nú hefur hluturinn í Völku verið seldur og minni eignir voru seldar í vetur. Fyrir skömmu hafi sjóðurinn fjárfest í Florealis. „Það er jákvætt því sjóðurinn hefur ekki getað hreyft sig í nokkur ár.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK