Fjögur berjast um formennskuna hjá SAF

Samsett mynd

Fjórir einstaklingar sækjast eftir því að gegna formennsku hjá Samtökum ferðaþjónustunnar. Það eru þau Róbert Guðfinnsson, Bjarnheiður Hallsdóttir, Þórir Garðarsson og Margeir Vilhjálmsson. 

Grím­ur Sæ­mundsen hefur gegnt for­mennsku und­an­far­in fjög­ur ár en hann tilkynnti um miðjan febrúar að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér á aðalfundi samtakanna sem fer fram 21. mars. Fyrr í mánuðinum lét Helga Árnadóttir af störfum sem framkvæmdastjóri samtakanna. 

Róbert Guðfinnsson hefur fjárfest fyrir milljarða í atvinnuuppbyggingu á Siglufirði. Hann stóð að uppbyggingu Sigló Hótels sem hefur gistirými fyrir allt að 140 manns og er aðaleigandi líftæknifyrirtækisins Genis sem stefnir á að velta 20 milljörðum króna eftir fjögur ár.  

Bjarnheiður Hallsdóttir er framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Kötlu DMI. Bjarnheiður var stundakennari við Háskóla Íslands og eins við Ferðamálaskóla Kópavogs auk þess að halda hina ýmsu fyrirlestra varðandi ferðaþjónustu. Hún er einnig í forystu þess fólks á Skaganum sem hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun og öðrum aðgerðum sem mynda eiga þrýsting á stjórnvöld að fara í úrbætur á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. 

Þórir Garðarsson er stjórnarformaður ferðaþjónustufyrirtækisins Gray Line Iceland. Hann situr bæði í stjórn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka ferðaþjónustunnar. Þórir hefur gegnt ýmsum nefndarstörfum sem tengjast ferðaþjónustunni. Meðal annars var hann formaður starfshóps stjórnar SAF til að móta stefnu SAF í fjármögnun framkvæmda á ferðamannastöðum árið 2012.

Margeir Vilhjálmsson er framkvæmdastjóri Bílaleigunnar Geysis. Hann var framkvæmdastjóri Golfklúbbs Reykjavíkur á árunum 1998 til 2006, síðan forstöðumaður hjá Sparisjóðabankanum en fór í bílaleigugeirann árið 2009 og hefur verið þar síðan. 

Átta í framboði til stjórnar

Átta aðilar skiluðu inn framboði til stjórnar SAF fyrir starfsárin 2018-2020, en þeir eru eftirtaldir í stafrófsröð:

  • Björg Dan Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri TREX ehf.
  • Gunnar Rafn Birgisson, eigandi Atlantik ferðaskrifstofu
  • Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs Kynnisferða
  • Hendrik Berndsen, stjórnarformaður Hertz
  • Ívar Ingimarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Óseyri
  • Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar
  • Ólöf R. Einarsdóttir, eigandi Mountaineers of Iceland
  • Sævar Freyr Sigurðsson, stofnandi og eigandi Saga Travel ehf.

Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótels Sögu, og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Icelandair Group, sitja nú þegar í stjórn SAF, en þau voru kjörin til tveggja ára á aðalfundi samtakanna árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK