Áhugi á hraðhúsum hérlendis

Inni í Snabba Hus-íbúðunum er áhersla lögð á góða hönnun.
Inni í Snabba Hus-íbúðunum er áhersla lögð á góða hönnun. Ljósmynd/Aðsend

Sænski arkitektinn Andreas Martin-Löf sagði frá verðlaunahönnun sinni á fjölbýliseiningahúsunum Snabba Hus, eða hraðhúsum í lauslegri þýðingu, á fundi um skipulag og arkitektúr í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni í gær. Íbúðirnar, sem eru 33 fermetra stúdíóíbúðir, eru fullkláraðar með innréttingum og öllu á verkstæði úti í bæ og svo raðað saman í grind á byggingarstað, rétt eins og þegar vínflöskum er raðað í vínrekka, eins og arkitektinn komst sjálfur að orði á fundinum.

Martin-Löf segir aðspurður að aðilar hér á landi hafi komið að máli við sig síðan hann kom til landsins fyrir tveimur dögum og lýst yfir áhuga á lausninni. Hann væri opinn fyrir slíku samstarfi, hvort sem íbúðareiningar yrðu fluttar tilbúnar milli landa, eða byggðar hér.

„Margir hafa talað við mig síðan ég kom hingað og svo virðist sem sama vandamálið sé hér og í Svíþjóð, að það vanti sífellt fleiri og fleiri litlar íbúðir á markaðinn. Það yrði mjög áhugavert að sjá hvað væri hægt að gera hér í þessum efnum,“ segir Martin-Löf í samtali við Morgunblaðið.

Sænski arkitektinn Andreas Martin-Löf á heiðurinn að Snabba Hus-íbúðunum.
Sænski arkitektinn Andreas Martin-Löf á heiðurinn að Snabba Hus-íbúðunum.

Vantar skammtímalausn

„Vandamálið sem við í Svíþjóð stöndum frammi fyrir er að við þurfum ekki eingöngu að hugsa fyrir langtímalausnum í uppbyggingu á íbúðamarkaði, heldur einnig skammtímalausnum. Stokkhólmur er til dæmis sú borg í Evrópu sem vex hvað hraðast,“ segir Martin-Löf. 

„Við erum með þetta uppbyggingarverkefni sem við köllum Snabba Hus sem er hannað upphaflega af sænska byggingarfélaginu Junior Living í samstarfi við mig og fyrirtæki mitt Andreas Martin-Löf Arkitekter. Þetta eru eins herbergis íbúðir með stórum glugga í endanum, sem hægt er að renna til hliðar, og svölum. Einingin er framleidd í verksmiðju, og allar íbúðirnar eru nákvæmlega eins, með nákvæmlega eins innréttingum. Við framleiðum tvær svona íbúðir á dag í verksmiðjunni, með öllu inniföldu.“

Nú þegar er búið að hrinda tveimur Snabba Hus-verkefnum af stað. Einu rétt fyrir utan Svíþjóð og öðru fyrir utan Uppsali. Í vor hefst annað verkefni í Snabba Hus-hugmyndafræðinni í Stokkhólmi og 400 íbúðir verða þar tilbúnar haustið 2019. „Þá verðum við samtals komin með 700 íbúðir, og markmiðið er að klára 1.000 íbúðir í Stokkhólmi undir merki Snabba Hus.“

60 þúsund króna leiga

Íbúðirnar í Snabba Hus eru allt leiguíbúðir, og leigan er 4.900 sænskar krónur á mánuði, að sögn Martin-Löf, jafnvirði 60 þúsund íslenskra króna. Hann segir að leigjendur séu af ýmsum toga, fólk sem hefur átt erfitt með að finna leiguhúsnæði, meðal annars margt ungt fólk. Hann segir að umsækjendur um fyrstu 280 íbúðirnar hafi verið um 8.000 talsins. „Sumir höfðu þá beðið í 10 ár eftir leiguíbúð. Ástandið á íbúðamarkaði er verulega slæmt í Svíþjóð.“

Greinin í heild sinni birtist í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK