„Alveg vitað í hvað stefndi“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Valli

 „Ég sé eftir þeim tíma sem fór forgörðum, af því að það var alveg vitað í hvað stefndi þegar málareksturinn hófst,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á málþingi Félags atvinnurekenda og sendinefndar ESB á Íslandi, sem haldið var í gær á undan stofnfundi Íslensk-evrópska viðskiptaráðsins.

Kristján ræddi dóm EFTA-dómstólsins varðandi bann við innflutningi á ferskvörum. Hann gagnrýndi að þrátt fyrir að stjórnvöldum hefði undanfarin ár mátt vera ljóst hver niðurstaða EFTA-dómstólsins yrði, hefði ekkert verið gert til að fá svokallaðar viðbótartryggingar til að koma í veg fyrir að fluttar yrðu inn vörur smitaðar af salmonellu eða kamfýlóbakter, þrátt fyrir að innflutningur ferskvöru yrði leyfður. Í átta ár hefði ekkert verið unnið í þessum málum, en nú væri sú vinna komin í fullan gang. 

Á málþingi Félags atvinnurekenda og sendinefndar ESB á Íslandi.
Á málþingi Félags atvinnurekenda og sendinefndar ESB á Íslandi. mbl.is/Valli

Í erindi sínu ræddi Kristján tollvernd í landbúnaði en umræðan er að hans mati á villigötum. „Við heyrum það að verið sé að verja landbúnaðinn með gríðarlegum tollamúrum. [...] Í tollskránni eru 1900 vörunúmer sem taka til landbúnaðar og 87% þeirra eru án tolla. Það eru einungis 13% með toll og af þessum 13% er töluverður hluti sem ber bara krónutölugjöld sem hafa ekki hreyfst frá árinu 1995. Þegar við erum að ræða tollvernd í landbúnaði þurfum við að hafa þetta allt í huga. Ég tel að umræðan hafi verið á villugötum.“

Á málþinginu gagnrýndi Magnús Óli Ólafsson, formaður FA og forstjóri Innness ehf., sérstaklega áform sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að skerða einhliða innflutningskvóta fyrir kjöt, sem tollasamningurinn við ESB kveður á um og um að fjölga á ný útboðum á tollkvóta. 

Auk Kristjáns og Magnúsar tóku til máls Ólafur Valsson, dýralæknir og sérfræðingur í matvælaeftirliti ESB, og Jóhanna Jónsdóttir, ráðgjafi í EES-málum í utanríkisráðuneytinu. Á heimasíðu Félags atvinnurekenda má lesa nánar um málþingið. 

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir