Sjálfkeyrandi Teslur í næstu uppfærslu

Elon Musk framkvæmdastjóri Tesla.
Elon Musk framkvæmdastjóri Tesla. AFP

Ný uppfærsla í sjálfstýrihugbúnaði Tesla-bifreiða sem væntanleg er í ágúst mun bjóða upp á hundrað prósent sjálfstýringu. Þetta sagði Elon Musk, framkvæmdastjóri Tesla, á Twitter-síðu sinni.

Bílaframleiðendur og tæknifyrirtæki keppast um að leiða kapphlaupið um sjálfkeyrandi bíla á meðan aðrir hafa áhyggjur af umferðaröryggi með sjálfkeyrandi bíla á götunum.

Musk greindi frá tíðindunum á Twitter í svari við notanda sem kvartaði undan vandamálum með hálf-sjálfstýringuna í bílunum í dag, en hún krefst þess að bílstjórar séu alltaf undir stýri. Sagði Musk að í næstu uppfærslu, útgáfu níu, verði tekið á ýmsum vandamálum. „Fram til þessa hefur einbeitingin verið á öryggishlið sjálfstýribúnaðarins, en með útgáfu níu byrjum við að innleiða sjálfkeyrandi möguleika.

AFP fréttaveitan greinir frá málinu og segir í fréttinni að þessi uppfærsla gæti flýtt fyrir komu sjálfkeyrandi bifreiða á götum Bandaríkjanna.

Musk hefur gagnrýnt óþarfa áhyggjur öryggisyfirvalda af komu sjálfkeyrandi bíla, og segir þá vera öruggari en manneskjur undir stýri. „Það er skrýtið að árekstur sjálfkeyrandi Tesla-bifreiðar sem endaði með ökklabroti fái pláss á forsíðum allra fjölmiðla á sama tíma og nánast ekkert er fjallað um hina 40 þúsund sem létu lífið í umferðarslysum á síðasta ári bara í Bandaríkjunum,“ sagði Musk.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir