Tapa 300 milljónum á öðrum fjórðungi

VÍS gerir ráð fyrir um 300 milljón króna tapi á ...
VÍS gerir ráð fyrir um 300 milljón króna tapi á uppgjöri annars ársfjórðungs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afkoma Vátryggingafélags Íslands á öðrum ársfjórðungi verður lakari en félagið gerði ráð fyrir í afkomuviðvörun sem send var út þann 20. júní síðastliðinn. Gert er ráð fyrir um 300 milljón króna tapi á fjórðungnum, í stað 92 milljóna króna hagnaðar, fyrir skatta. 

Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu VÍS til Kauphallarinnar. Í tilkynningunni segir að þessi staða hafi komið í ljós við vinnslu árshlutauppgjörs annars ársfjórðungs.

„Stærsta frávikinu veldur óhagstæð þróun á verðbréfamörkuðum síðustu dagana í júní, eftir að félagið sendi út síðustu afkomuviðvörun,“ segir í tilkynningu félagsins.

Hagnaður félagsins á fyrri helmingi ársins mun eftir sem áður nema um 600 milljónum króna fyrir skatta, en uppfærð 12 mánaða afkomuspá (3F 18 – 2F 19) verður birt með uppgjöri annars ársfjórðungs þann 22. ágúst næstkomandi, að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir