Félaginu tryggðar 850 milljónir

Erlendir ferðamenn á Þingvöllum.
Erlendir ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við höfum verið mjög lánsöm þegar kemur að fjárfestum sem koma að félaginu sem hafa fram að þessu tryggt félaginu samtals um 850 milljónir,“ segir Hilmar Halldórsson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins TripCreator, en fjármagnið hefur hingað til komið eingöngu frá íslenskum fjárfestum. 

Hilmar sem stofnaði TripCreator árið 2013 ásamt fjölskyldu sinni, en það snýst um samnefndan ferðavef sem fór í loftið 2015 og gerir ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að skipuleggja ferðalög með mun auðveldari hætti en áður og er hannað til að hagræða ferlum og hjálpa ferðaþjónustuaðilum að spara tíma og selja meira. 

„Lausnin okkar snýst um að gera bókunarferla sjálfvirka, plana og búa til ferðapakka bæði dínamíska og læsta og allt sé bókanlegt á einum stað. Við höfum nú tekið það skref að bjóða ferðaþjónustufyrirtækjum að nota lausnina okkar TripCreator Free Forever endurgjaldslaust. Lítil og meðalstór ferðþjónustufyrirtæki, ferðabloggarar og umboðsmenn hafa átt í erfiðleikum með að tengjast alþjóðlegum fyrirtækjum sem bjóða ferðatengda þjónustu. Við ákváðum að stíga skrefið og gera saminga við nokkur af þessum alþjóðlegum fyrirtækjum þar sem við höfum nú þegar tengst þeim og brúum þar með bilið milli söluaðila og birgja,“ segir Hilmar ennfremur.

Verður áfram með starfsemi á Íslandi

Höfuðstöðvar TripCreator hafa verið á Íslandi til þessa og eru nú til húsa við Lágmúla í Reykjavík en til stendur að flytja þær til New York í Bandaríkjunum. Hilmar segir þó aðspurður að það þýði ekki að félagið hætti starfsemi hér á landi heldur verði henni haldið áfram. Helstu markaðir þess séu hins vegar í Norður-Ameríku og Evrópu.

„Við erum að leggja áherslu einkum á Norður-Ameríku og Evrópu. Við erum þegar komin með söluskrifstofu í London og höfum opnað aðra í New York og stefnum að því að færa höfuðstöðvarnar þangað fyrst og fremst til þess að vera nær markaðinum,“ segir Hilmar.

Fleiri stór tíðindi hafa verið úr íslenska hugbúnaðargeiranum að undanförnu. Þannig greindi mbl.is frá því í gær að suðurkóreskir fjárfestar hefðu fest kaup á tölvuleikjaframleiðandanum CCP fyrir 46 milljarða króna og einnig hefur verið greint frá því að tölvuleikjaframleiðandinn 1939 Games hefði tryggt sé 220 milljónir króna fjármagn frá fjárfestum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK