Hætta framleiðslu á Bjöllunni

Volkswagen Bjöllur á bílasýningu í Bandaríkjunum í tilefni að 23 ...
Volkswagen Bjöllur á bílasýningu í Bandaríkjunum í tilefni að 23 alþjóðlega Volkswagen Bjöllu deginum í júní í sumar. Hætta á framleiðslu á bílnum á næsta ári. AFP

Volkswagen-bílaframleiðandinn ætlar að hætta framleiðslu á Bjöllunni á næsta ári. Hefur BBC  eftir Volkswagen að framleiðslu á bílnum í verksmiðju fyrirtækisins í Mexíkó verði hætt í júlí á næsta ári, en að áður verði settar á markað sérstakar viðhafnarútgáfur af Bjöllunni.

Bjallan á rætur sínar að rekja til Þýskalands nasistatímans og var framleidd sem bíll fyrir almenning. Síðar meir gerði Bjallan það gott í röð vinsælla Disney-mynda um bílinn Herbie.

Sala á Bjöllunni hefur hins vegar dregist saman á undanförnum árum, ekki hvað síst á lykilmörkuðum í Bandaríkjunum. Segja forsvarsmenn Volkswagen, sem m.a. hafa lagt mikið fé í rafmagnsbíla undanfarið, að til standi að fækka þeim gerðum Volkswagen-bíla sem verði í boði og að áhersla verði lögð á rafmagns- og fjölskyldubíla.

Lokaútgáfan af Bjöllunni, sem kemur á markað áður, verður hins vegar fáanleg bæði sem tveggja dyra bíll og sem blæjubíll.

„Eftir þrjár kynslóðir og tæpa sjö áratugi mun fráfall Bjöllunnar vekja margvíslegar tilfinningar hjá hinum fjölmörku staðföstu aðdáendum hennar,“ sagði Hinrich Woebcken, framkvæmdastjóri Volkswagen í Bandaríkjunum, er hann greindi frá ákvörðuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir