Minni viðskiptahalli en fyrir ári

Fluttar voru út vörur fyrir 48,7 milljarða króna í september á þessu ári og inn fyrir 62,7 milljarða króna samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Fram kemur í fréttatilkynningu frá stofnuninni að vöruviðskiptahallinn hafi verið minni nú en fyrir ári.

„Vöruviðskiptin í september, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 14,1 milljarð króna. Í september 2017 voru vöruviðskiptin óhagstæð um 21,1 milljarð króna á gengi hvors árs. Vöruviðskiptahallinn í september 2018 var því 7,1 milljarði króna minni en á sama tíma árið áður. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn í mánuðinum 14,2 milljörðum króna samanborið við 20,3 milljarða króna halla í september 2017.“

Þá segir enn fremur að á tímabilinu janúar til september 2018 hafi verið fluttar út vörur fyrir 433,9 milljarða króna en inn fyrir 564,3 milljarða. „Halli á vöruviðskiptum við útlönd nam því 130,4 milljörðum króna reiknað á fob verðmæti. Á sama tíma fyrir ári voru vöruviðskiptin óhagstæð um 135,1 milljarð á gengi hvors árs. Vöruviðskiptahallinn á tímabilinu janúar til september er því 4,7 milljörðum króna minni en á sama tíma fyrir ári. Án skipa og flugvéla nam vöruviðskiptahallinn 115,8 milljörðum króna, samanborið við 122,5 milljarða króna á sama tíma árið áður.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir