Hagnaður Sýnar dregst saman

Sýn varð til við sameiningu Vodafone og 365 miðla í …
Sýn varð til við sameiningu Vodafone og 365 miðla í lok síðasta árs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagnaður fjarskiptafyrirtækisins Sýnar hf. fyrir þriðja ársfjórðung þessa árs nam 226 milljónum króna og dregst hagnaðurinn saman um 22% miðað við sama tímabil í fyrra.

Í tilkynningu frá Sýn er tekið fram að vegna kaupa fyrirtækisins á eignum og rekstri 365 miðla hf. í desember 2017 gætir áhrifa af því á samanburð fjárhæða milli ára. Árshlutareikningurinn var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi í dag.

Tekjur á þriðja ársfjórðungi 2018 námu 5.449 milljónum króna sem er hækkun um 59% á milli ára. Tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins jukust um 6.233 milljónir króna eða 63%.

EBITDA-hagnaður, afkoma áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta, nam 1.032 milljónum króna á ársfjórðungnum sem er hækkun um 178 milljónir króna milli ára. EBITDA hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins nam 2.468 milljónum króna, sem er 6% hækkun á milli ára.

Hagnaður tímabilsins nam 226 milljónum króna sem er 22% lækkun á milli ára. Hagnaður á fyrstu 9 mánuðum ársins var 278 milljónir króna, sem er 62% lækkun milli ára.

Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu 516 milljónum króna á fjórðungnum sem er 40% hækkun á milli ára og má meðal annars rekja til fjárfestinga í húsnæði og kerfum tengt samrunaverkefni og útskiptingu á myndlyklum.

Samruninn kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir

Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar, segir það ánægjulegt að sjá að samruninn sé að skila sér í uppgjörinu en að kostnaður við samrunann hafi verið hærri en búist var við.

Fyrirtækið sendi frá sér afkomuviðvörun í byrjun mánaðarins og haft er eftir Stefáni í tilkynningu að ástæðan sé einkum sú að samrunaverkefni hafa haft meiri áhrif á starfsemi og lengur en spáð var.

„Þetta hefur haft þau áhrif að kostnaðarstig fyrirtækisins hefur verið hærra en búist var við þar sem rekstrarverkefni hafa skilað sér hægar auk þess sem ytri kostnaður og launakostnaður hefur verið hærri í tengslum við álag og yfirvinnu við yfirfærslu kerfa og flutninga, fækkun stöðugilda er þó í takt við markmið samrunans,“ er haft eftir Stefáni í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK