„Enginn einn getur unnið leikinn“

Stefán Þór Björnsson og Stefán Gunnarsson, stofnendur og stjórnendur Solid …
Stefán Þór Björnsson og Stefán Gunnarsson, stofnendur og stjórnendur Solid Clouds sem framleiðir leikinn Starborne. mbl.is/​Hari

Um síðustu mánaðamót hófst svokölluð alpha-prófun á íslenskum tölvuleik sem hefur verið fjögur ár í þróun. Þegar hafa fjárfestar sett tæplega 440 milljónir í þróun tölvuleiksins, en aðstandendur hans vonast eftir því að nokkur hundruð þúsund manns muni spila leikinn þegar hann verður formlega gefinn út á næsta ári. Nokkur þúsund manns taka þegar þátt í prófunum og spila þeir allir saman á sama leikjaþjóni.

Blaðamaður mbl.is settist niður með þeim Stefáni Gunnarssyni og Stefáni Þór Björnssyni, tveimur af stofnendum fyrirtækisins Solid Clouds sem stendur fyrir gerð leiksins Starborne. Stýra þeir daglegum rekstri félagsins. Auk þeirra kom Sigurður Arnljótsson, fyrsti forstjóri CCP, að því að stofna félagið haustið 2013.

Hver leikur tekur þrjá mánuði

Starborne er þrívíður herkænskuleikur í geimnum sem er spilaður í rauntíma af þúsundum spilara á risastóru stöðukorti. Til að lýsa leiknum er líklegast best að hugsa sér tölvuleikinn vinsæla Civilization, nema hvað þúsundir eru að spila saman í stað eins eða örfárra. Einnig mætti lýsa leiknum sem risastórri útgáfu af borðspilinu Risk. Spilarar þurfa svo að byggja sig upp, safna hráefnum og stækka eigið umráðasvæði. Til lengri tíma litið þarf svo að standa í hernaði eða búa yfir ráðsnilld í samskiptum við aðra.

Munurinn á Starborne og öðrum sambærilegum leikjum er hins vegar hversu gríðarlega stór og fjölmennur leikur Starborne er. Í stað þess að geta mögulega keppt á móti tölvunni eða allt að nokkrum tugum mótspilara geta verið um fimm þúsund spilarar á sama tíma sem taka þátt í einum leik í Starborne. Tekur slíkur leikur þrjá mánuði, eða þann tíma sem það tekur að klára ákveðin vinningsmarkmið.

Margfalt umfangsmeiri en aðrir svipaðir leikir

Hugmyndin að leiknum kom frá Stefáni Gunnarssyni, sem er einnig framkvæmdastjóri Solid Clouds. Hann segist bæði hafa spilað borðspil og gamla vefleiki sem byggðu á svipaðri hugmynd og Starborne. Þeir hafi hins vegar verið mun takmarkaðri og hann hafi viljað gera eitthvað mikla stærra. Til að setja þetta í samhengi eru stærstu kortin í Civilization-leikjunum um 10 þúsund reitir, en í Starborne eru þeir 1,5 milljónir.

Stefán Þór, sem er fjármálastjóri félagsins, segir að þó að leikurinn gangi út á að byggja sig upp og skáka öðrum, þá komi fljótlega í ljós að mikilvægasti parturinn sé að tengjast öðrum spilurum bandalögum. Þar komi jafnvel hundruð spilara saman og samhæfi aðgerðir sínar, sérhæfi sig í framleiðslu eða hernaði auk þess að reyna að koma fyrir njósnurum hjá öðrum bandalögum.

Kallar á talsverðan spilatíma

„Þú þarft ekki að vera í bandalagi til að skemmta þér, en ef þú ætlar að vinna leikinn þarftu að vera í bandalagi,“ segir Stefán Þór og bætir við að bandalag bandalaganna sé að fara að vinna hvern leik. „Enginn einn spilari getur unnið leikinn.“

Þar sem hver leikur tekur um þrjá mánuði vaknar sú spurning hjá blaðamanni hvort spilarar þurfi að verja miklum tíma á dag alla daga í slíkri lotu. Stefán Gunnarsson segir að hver leikur geti verið ákveðin törn. Hins vegar bjóði leikurinn upp á að hægt sé að skipuleggja byggingarferli og framkvæmdir 12 klukkustundir fram í tímann. Stefán Þór bætir því að við að hann vakni á hverjum degi og athugi hvað hafi gerst yfir nóttina í leiknum. Hvort einhver hafi ráðist á hann og svo framvegis. Í hádeginu kíki hann einnig á stöðuna sem og þegar hann komi heim út vinnu. Um kvöldið þegar börnin eru komin í háttinn og hann hafi tíma taki hann svo stundum lengri spilatíma. Allt í allt séu þetta 1-2 klukkustundir á dag. „Ég get verið mjög samkeppnishæfur í leiknum svona,“ segir hann.

Unnið hefur verið að þróun Starborne hjá Solid clouds undanfarin …
Unnið hefur verið að þróun Starborne hjá Solid clouds undanfarin 4 ár. mbl.is/​Hari

Styttist í formlega útgáfu leiksins

Tæplega fjögur þúsund spilarar víða um heim spila nú prófunarútgáfu leiksins, en þetta er áttunda prófunarútgáfan sem sett er í loftið. Munurinn núna að sögn Stefáns Þórs er hins vegar að eftir þrjár vikur sé gert ráð fyrir að setja aðra umferð í loftið án þess að sú fyrri klárist. Verður það í fyrsta skipti sem fleiri en einn leikur eru í gangi í einu og í framhaldinu stefna þeir á að setja leik í gang með nokkurra vikna millibili fram í apríl þegar gefa á út svokallaða beta-útgáfu, en það er síðasta prófunarútgáfan fyrir lokaútgáfu, sem stefnt er á að komi út næsta haust.

Á næstunni gera þeir ráð fyrir að ráða 3-4 nýja starfmenn í viðbót við þá 15 sem starfa hjá fyrirtækinu í dag. Þegar komi að formlegri útgáfu leiksins næsta haust gera þeir svo ráð fyrir að starfsmennirnir séu orðnir allt að 25 talsins.

Herkænskuleikir njóta talsverðra vinsælda og eru um 30-40% af öllum tekjum í tölvuleikjageiranum frá slíkum leikjum. Leikir eins og Starborne eru hins vegar lítill undirgeiri þess markaðar, en þó í talsverðum vexti. Stefán Þór segir að fyrir nokkrum árum hafi hann varla verið til, en velti í dag nokkrum milljörðum og nefnir þar meðal annars leikinn Good game empire, sem hafi þénað um 800 milljónir dala á undanförnum árum, en það nemur um 100 milljörðum króna.

Tekjur þegar byrjaðar að berast

Stefán Gunnarsson segir að nú þegar sé búið að virkja tekjukerfi leiksins og það sé farið að skila tekjum. Ókeypis er að spila leikinn en spilarar geta keypt sér ýmis hægindi innan leiksins sem auðveldar spilun leiksins. Er um að ræða svokallað „freemium“-verðmódel, en það hefur einnig verið kallað verðmismununarkerfi. Segir Stefán spilara geta keypt sér smá aðstoð og styrkingu sem auðveldar spilun leiksins, en samt ekki of mikla. Leikurinn sé áfram byggður á hæfileikum spilarans. „Það er ekki nóg að eyða bara peningum, þú þarft að vera góður spilari,“ segir Stefán og bætir við: „Það skiptir líka miklu máli að vera góður í pólitík og þeir sem eiga auðvelt með að eiga samskipti við aðra spilara, þeim gengur mjög vel.“

Spurðir út í það af hverju þessi leið hafi verið valin umfram til dæmis fast áskriftargjald segir Stefán Þór að með þessari leið fáist inn meiri tekjur. Tekjumódelið hafi sannað sig undanfarin ár og viðtökurnar í Starborne gefi góð fyrirheit. Þannig segir hann að um 5-10% af nýjum spilendum greiði fyrir einhvers konar viðbót eða þægindi og þegar horft sé til þeirra sem spili aftur og aftur þá fari hlutfallið upp í 40%.

Stefán Gunnarsson segir að persónulega hefði hann viljað sjá annað tekjumódel, eins og margir aðrir. „Ég heyri oft að fólk vilji áskrift og ef ég hefði trú á að það væri gerlegt myndi ég gera það,“ segir hann. „Þetta er hvernig leikjaheimurinn hefur þróast og það er ástæða fyrir því.“

Fjárfestar hafa þegar sett um 440 milljónir í þróun leiksins …
Fjárfestar hafa þegar sett um 440 milljónir í þróun leiksins Starborne. mbl.is/​Hari

Telur raunhæft að ná 200-300 þúsund spilurum

Í dag spila sem fyrr segir tæplega fjögur þúsund manns leikinn og segjast nafnarnir vona að daglegir spilarar verði orðnir um tíu þúsund í apríl þegar alpha-prófun klárast. „Við þurfum um 20-40 þúsund spilara til að fyrirtækið komi út í hagnaði, en við ætlum að ná miklu fleirum en það,“ segir Stefán Þór. Bendir hann á að EVE-online hafi fengið um 200 þúsund notendur meðan aðeins var um að ræða leik á ensku fyrir PC-notendur. Segir hann að verið sé að vinna að snjallsímaútgáfu og þegar fram líða stundir vilji þeir þýða leikinn á fleiri tungumál. „Í einhverjum heimi gætum við náð milljón spilurum, en ég tel raunhæft að ná 200-300 þúsund spilurum á Vesturlöndum,“ segir Stefán Þór.

Stefánarnir eru ekki einu starfsmenn fyrirtækisins, en meðal starfsmanna er Ásgeir Jón Ásgeirsson, fyrrverandi listrænn stjórnandi CCP. Þá segir Stefán Gunnarsson að teymið hafi virkilega fengið að njóta sín og þó hann hafi komið með upphaflega hugmynd hafi það verið teymið sem kom hugmyndinni jafn langt og raunin er.

Félagið hefur farið í gegnum fjögur fjárfestingaferli. Árið 2014 sóttu þeir 25 milljónir í hlutafé, árið 2015 sóttu þeir tæplega 40 milljónir og árið 2016 komu inn 103 milljónir í nýtt hlutafé. Í fjármögnun frá árinu 2017, sem endaði snemma á þessu ári, söfnuðu þeir svo tæplega 270 milljónum, eða samtals tæplega 440 milljónum á síðustu fjórum árum.

Stærsti hluthafi félagsins er Stefán Gunnarsson með 20%, Kjölur fjárfestingafélag með 10%, Sigurður Arnljótsson, sem var meðstofnandi og stjórnarformaður, með 7% og Stefán Þór með 5%.

Stærri markmið í framtíðinni

Þrátt fyrir að heill nýr tölvuleikur sé risaverkefni í sjálfu sér er fyrirtækið með stærri hugmyndir til framtíðar. Fyrir Starborne hönnuðu þeir grundvöll (e. platform) þar sem hægt er að þysja út og inn á leikkortið sem eins og fyrr segir getur orðið gríðarlega stórt. Þannig er hægt að sjá yfir spilasvæði allt að fimm þúsund spilara, svo þysja inn og sjá strax minnstu smáatriði. Þetta segir Stefán Gunnarsson að sé einstakt í leikjum sem þessum og að þeir hafi hannað kerfið þannig að hægt sé að yfirfæra það á fleiri leiki.

„Starborne verður fyrsta varan okkar, en við munum gera alla vega sjö vörur út frá þessu platformi,“ segir hann. Þannig sjái þeir meðal annars fyrir sér að gera leik byggðan á þessari hugmynd í ævintýraheimi (e. fantasy). Þeir hafi hins vegar valið geimleik fyrst þar sem þeir töldu mestu vöntunina vera í þeim flokki.

Vefur Solid clouds

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK