Ákvarðanir á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Árni Sæberg

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að peningastefnunefnd hafi bæði vilja og tæki sem til þarf til að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum við verðbólgumarkmiðið til lengri tíma. „Það gæti kallað á harðara taumhald peningastefnunnar á komandi mánuðum. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og ríkisfjármálum, munu skipta miklu um hvort svo verður og hafa áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi.“ Þetta kom fram í máli hans á kynningarfundi nefndarinnar í morgun.

Bindiskyldan var nýlega lækkuð úr 20% í 0% auk þess sem fjármagnshöft voru afnumin að fullu. Síðan þá hafa viðskipti á gjaldeyrismarkaði verið meiri en áður, en þá hefur gengi krónunnar einnig styrkst, þrátt fyrir tugmilljarða í lausum aflandskrónum.

Már var á fundinum spurður út í hvort hann hefði átt von á þessari þróun, en frá síðasta fundi peningastefnunefndar hefur gengið styrkst um 3%. Sagði Már að hann hafi síður búist við þessari þróun. Nefndi hann að af um 82-84 milljörðum af aflandskrónum, hefðu um 30-40 milljarðar verið í lausu fé sem gert hefði verið ráð fyrir að gætu farið nokkuð fljótt út. Hingað til hafi um 10 milljarðar farið út, en hann sagði þó að reiknað væri áfram með að öll þessi upphæð færi út. Á móti eru svo um 25 milljarðar bundnir í skuldabréfum og sagði Már að hann ætti von á að það færi að mestu áfram í skuldabréfastöður. Þá hafi aðrir 10 milljarðar verið í fjárfestingum sem ekki væru mjög lausar.

Már ítrekaði að bankinn hefði sagt að hann myndi ekki láta gengi krónunnar veikjast og því hefði bankinn meðal annars gripið inn í einn dag þegar þrýstingur var á krónuna. „En síðan þá hefur gengið verið stöðugt eða hækkað,“ sagði hann. Sagði hann skýringuna vera að aflandskrónur á leið út og nýfjárfestingar á leið inn hefðu jafnað hvort annað út. Már sagðist að lokum ekki vita hvernig framhaldið yrði, en að bankinn væri undir allt búinn.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK