Vísun í nasista dregur dilk á eftir sér

Herbert Diess tók við forstjórastarfinu hjá Volkswagen í fyrra.
Herbert Diess tók við forstjórastarfinu hjá Volkswagen í fyrra. AFP

Herbert Diess, forstjóri Volkswagen-bílaframleiðandans í Þýskalandi, hefur komist í hann krappan vegna ummæla sem hann lét falla á fundi með öðrum stjórnendum fyrirtækisins í liðinni viku. Ummælin lét hann falla í umræðu um hagnað fyrirtækisins. Sagði hann af því tilefni: „EBITD macht frei,“ sem gæti útlagst með orðunum „Hagnaður gerir ykkur frjáls.“

Ummælin myndu ekki hafa vakið sérstaka athygli nema fyrir þær sakir að þau vísa með augljósum hætti til þekktrar yfirskriftar sem finna mátti yfir inngangi að útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz í Póllandi. Yfir honum stóðu orðin „Arbeit macht frei“ eða „vinnan mun gera ykkur frjáls.“

Inngangurinn að hinum alræmdu útrýmingarbúðum nasista í Póllandi.
Inngangurinn að hinum alræmdu útrýmingarbúðum nasista í Póllandi.

Financial Times hefur það eftir fulltrúum fjárfesta sem eiga hluti í Volkswagen að ummælin séu óskiljanleg og aðrir segja nær öruggt að forstjórinn verði látinn taka pokann sinn í kjölfar þess að þau voru látin falla. Ulrich Hocker segir í samtali við miðilinn, en hann er framkvæmdastjóri DSW, sem er hópur sem heldur utan um hagsmuni minni fjárfesta í Volkswagen, að ummælin væru  „fáránleg“ og bætti við: „Þetta er setning sem þú getur ekki látið út úr þér í Þýskalandi.“

Gæti orðið endasleppt forysta

Diess tók við starfi forstjóra Volkswagen í fyrra í kjölfar útblásturshneykslis sem skók fyrirtækið og olli því gríðarlegu fjárhagslegu tjóni og álitshnekki. Tengdist málið búnaði sem fyrirtækið hafði komið fyrir í bílum sínum sem gerðu það að verkum að ómögulegt reyndist fyrir úttektaraðila að átta sig á raunverulegum útblæstri þeirra bíla fyrirtækisins sem knúnir eru áfram af díselvélum.

Það var Manager Magazin sem fyrst greindi frá því að Diess hefði látið ummælin falla á fyrrnefndum fundi stjórnenda fyrirtækisins. Þar var því einnig haldið fram að hann hefði notað þau oftar en einu sinni.

Adolf Hitler skoðar Bjöllu úr verksmiðjum Volkswagen-verksmiðjunnar.
Adolf Hitler skoðar Bjöllu úr verksmiðjum Volkswagen-verksmiðjunnar. AFP

Diess hefur beðist afsökunar á orðanotkuninni og sagt að það hafi ekki verið ætlun sín að vísa með nokkrum hætti til nasismans eða Hitlers í orðum sínum. Ummælin þykja hins vegar óheppileg, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að tengsl Nasistaflokksins í Þýskalandi og Volkswagen-verksmiðjanna voru mjög rík á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Þannig voru t.d. þrælar á vegum þriðja ríkisins látnir starfa í verksmiðjum fyrirtækisins, einkum fólk sem lokað var inni í Arbeitsdorf-útrýmingarbúðunum í Wolfsburg í Þýskalandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK