Jón Ásgeir tilnefndur í stjórn Skeljungs

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Uppstillingarnefnd Skeljungs hefur lagt til í lokaskýrslu sinni fyrir stjórnarkjör félagsins, sem fram fer á hluthafafundi 27. maí, að fjárfestirinn Jón Ásgeir Jóhannesson verði meðal stjórnarmanna félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

365 miðlar, félag Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs, keypti í apríl stóran hlut í Skeljungi og bætti svo við sig síðar í mánuðinum. Í framhaldinu fór félagið fram á nýjan hluthafafund, en ársfundur félagsins var haldinn í mars og var þá ný stjórn kosin.

Mælir nefndin með eftirfarandi fimm í stjórn félagsins:

  • Jens Meinhard Rasmussen, stjórnarformaður
  • Birna Ósk Einarsdóttir varaformaður
  • Ata Maria Bærentsen
  • Baldur Már Helgason
  • Jón Ásgeir Jóhannesson

Uppstillingarnefndin leggur til að fjórir núverandi stjórnarmeðlimir verði áfram í stjórn, en ekki er mælt með að Kjartan Örn Sigurðsson verði áfram í stjórn, heldur að Jón Ásgeir taki sæti hans. Telur nefndin að í ljósi þess að síðasta stjórnarkjör hafi verið í mars sé mikilvægt að ákveðin samfella sé í stjórn félagsins. Er því mælt með því að Baldur, Birna og Jens sitji í stjórninni áfram, en þau komu ekki ný inn í mars. Þá er þekking Ata á alþjóðlegu laga- og viðskiptaumhverfi talin mikilvæg fyrir stjórnina.

Í umsögn nefndarinnar er meðal annars vísað til „yfirburðarreynslu“ Jóns Ásgeirs á smásölurekstri og er það talið honum til tekna að eiginkona hans eigi sjálf í félaginu til að tryggja virkt eignarhald.

„Í samtölum nefndarinnar við hluthafa og frambjóðendur kom fram áhersla á að stjórn byggi yfir reynslu af viðskiptum á einstaklingsmarkaði, þá sér í lagi verslanarekstri. Sú áhersla fellur vel að skilgreindri lykilhæfni (sbr. lið I.). Þá þekkingu er ekki að finna að verulegu leyti hjá þeim frambjóðendum sem tilgreindir eru hér að framan. Báðir frambjóðendur, Jón Ásgeir og Kjartan Örn, koma vel út úr mati nefndarinnar hvað þá lykilfærni varðar. Tilnefningarnefnd telur þó að ekki verði litið framhjá yfirburðarreynslu Jóns Ásgeirs af fjölbreyttum smásölurekstri. Í þessu sambandi tekur nefndin einnig undir það sem fram kom á fundum með hluthöfum að það sé góður kostur fyrir Skeljung hf. að a.m.k. einn stjórnarmaður eigi sjálfur, eða gegnum tengda aðila, hlut í félaginu til að tryggja virkt eignarhald. Svo er ekki í núverandi stjórn. Það telst því Jóni Ásgeiri einnig til tekna.“

Í uppstillingarnefndinni sátu þau Katrín S. Óladóttir, Sigurður Kári Árnason og Kjartan Örn. Kjartan kom þó hvorki að mati á framboðum né gerð tillögunnar og ritaði því ekki undir skýrsluna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK