Eftirlit sem gerir takmarkað gagn

Guðjón segir eftirlitsstofnanir sem aðeins bíði eftir að fyrirtæki geri …
Guðjón segir eftirlitsstofnanir sem aðeins bíði eftir að fyrirtæki geri mistök ekki hafa mikið notagildi fyrir samfélagið. Haraldur Jónasson/Hari

Stjórnvöld virðast sinna eftirlitshlutverki sínu ýmist of lítið og illa, eða af offorsi. Fyrir vikið lúta fyrirtæki í lægra haldi fyrir keppinautum sem stunda óheiðarlega viðskiptahætti, sprotar ná ekki að komast á legg því þeir drukkna undir fargani skrifræðis auk þess sem heiðarleg markaðsráðandi fyrirtæki fá ekki nauðsynlega leiðsögn.

Þetta segir Guðjón Heiðar Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins Burson Cohn & Wolfe á Íslandi. Dæmin eru mörg, að sögn Guðjóns, og nefnir hann frægt tilvik frá því fyrir nokkrum árum þar sem til stóð að hefja kræklingarækt við Gilsfjörð. Áður en starfsemin gat hafist þurfti samt fyrst af öllu að fá leyfi og umsagnir frá ótal stofnunum, vitaskuld gegn háu gjaldi og skyldi allt taka sinn tíma. Málið varðaði víst Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, Fiskistofu, Hafró, Landhelgisgæslu, Orkustofnun og Siglingastofnun. Varð úr að hætta við verkefnið þegar sást í hvað stefndi.

Þeir litlu fá að bíða

Annar galli eftirlitskerfisins birtist í því hvernig athygli stjórnvalda virðist að langstærstum hluta beint að stórfyrirtækjum. „Á meðan yfirgnæfandi meirihluti íslenskra fyrirtækja – kannski 99% – flokkast sem lítil og meðalstór þá  beinist orka stofnana eins og Samkeppniseftirlitsins nær einvörðungu að stærstu fyrirtækjum landsins. Umkvörtunarefni litlu fyrirtækjanna eru látin bíða, og málsmeðferðartíminn langur, svo að minni aðilar á markaði geta þurft að búa lengi við óeðlilegt samkeppnisumhverfi sem kann að valda þeim svo miklu tjóni að leggja þurfi reksturinn niður. Er þetta í reynd eins og 99% markaðarins sé án samkeppniseftirlits,“ segir Guðjón og bætir við að ákvarðanir sem koma jafnvel 10-12 árum eftir meint brot séu lítið meira en söguskýringar, og geri ekkert fyrir hagsmuni neytenda á samkeppnismarkaði. Þvert á móti hljóti óskilvirkt samkeppniseftirlit að fæla nýja eða smærri aðila frá því að halda inn á nýja markaði þar sem aldrei er að vita hvers konar mótspyrnafrá keppinautunum mun fá að líðast svo árum skiptir. „Hin hliðin á þessu er svo þegar stærri fyrirtæki eru til rannsóknar hjá samkeppnisyfirvöldum árum saman án þess að fá að vita  hvað tilefnið er, og geta þá ekki breytt vinnulagi sínu á meðan. Neytendur hafa því ekkert gagn af rannsókninni, ef hún er réttmæt, þann langa tíma sem hún varir. Það er betra fyrir samfélagið að leiðbeinandi hlutverki sé sinnt af gæðum og að takmarkið sé að stuðla að betra samkeppnisumhverfi í rauntíma en að hafa þann eina tilgang að bíða færis og sekta borgaranna.“

Hið opinbera stærsti brotavaldurinn

Í gegnum störf sín sem fyrirtækjaráðgjafi segist Guðjón oft hafa liðsinnt íslenskum félögum sem verða að berjast fyrir lífi sínu vegna óbilgjarnar og óheiðarlegrar samkeppni, eða vegna þess að opinberar stofnanir beinlínis vega að starfseminni í óljósum tilgangi. Gengur hann svo langt að segja að stærsti brotavaldurinn í íslensku efnahagslífi sé hið opinbera: „Fyrirtæki ríkisins eru rekin í samkeppni við einkageirann; ríkisstofnanir brjóta lög við ráðningar og upplýsingagjöf, og þær sinna ekki hlutverki sínu né svara fyrirspurnum; eftirlitsstofnanir fara ekki eftir þeim lagaramma sem þeim er settur,“ segir hann. „Þetta er alvarlegt mál sem stendur íslensku atvinnulífi fyrir þrifum, og þá sérstaklega litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem þurfa að reiða sig á að regluverkið sem þeim hefur verið skapað muni halda.“

Dæmin eru ótalmörg, bæði stór og smá, og segir Guðjón að útkoman sé minni samkeppni, minni verðmætasköpun og lakari kjör fyrir neytendur. „Er þá ótalið tjónið af því þegar hið opinbera ákveður að fara í rekstur í beinni samkeppni við einkageirann, oft með ríkisábyrgð sem skattgreiðendur sitja uppi með ef starfsemin gengur illa.“

Margt sem þarf að laga

En hvað má til bragðs taka? Guðjón telur mikilvægt að reyna að skapa einfaldari og skýrari umgjörð samhliða fækkun stofnana og skerpa á því hvar ábyrgðin liggur. „Þarf t.d. að koma á skilvirku kerfi til að leysa hratt og vel úr minni málum, hefja útgáfu bindandi álita og setja lögbundna málsmeðferðarfesti. Fyrir lítil fyrirtæki myndi breyta miklu ef eftirlitsgjöld stofnana væru í samræmi við þá vinnu sem unnin er, og innheimtan þá í formi gjaldtöku fyrir ákveðna þjónustu í stað skatts eins og nú er.“

Breyta þarf verklagi í eftirliti með samkeppnisbrotum svo niðurstaða liggi fljótt fyrir. „Flest bendir til að það sé reikningsdæmi fyrir óheiðarleg fyrirtæki að brjóta af sér, því tíminn vinnur með þeim sem fylgja ekki bókstaf laganna. Þá bendir málsmeðferðin til þess að öll samkeppnisbrot séu svo þaulhugsuð og flókin að það verði að taka mörg ár að rannsaka þau, en ég efa að það sé raunin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK