Alan Turing á nýjum 50 punda seðli

Nýr 50 punda seðill var kynntur í dag.
Nýr 50 punda seðill var kynntur í dag. Bank of England.

Andlit stærðfræðingsins Alan Turing mun prýða nýjan 50 punda seðil Breta. Þetta tilkynnti Englandsbanki, en seðillinn birtist almenningi fyrr í dag. Ráðgert er að seðillinn verði að fullu kominn í gagnið árið 2021.

Mark Carney, bankastjóri Englandsbanka, lýsti í dag yfir mikilli ánægju með útgáfu nýja seðilsins. „Alan Turing var stórkostlegur stærðfræðingur sem hefur haft mikil áhrif á daglegt líf okkar allra. Hann var ekki einungis faðir tölvunarfræðinnar heldur einnig stríðshetja,“ sagði Mark.

Alan er oft á tíðum kallaður faðir tölvunarfræðinnar ásamt því að vera einn af upphafsmönnum gervigreindar. Hann er einna þekktastur fyrir að hafa fundið upp svokallaða Turing-vél, sem talin er geta reiknað allt sem reiknirit er til fyrir. Slíkar vélar voru afar mikilvægar fyrir framþróun ýmis konar stafrænna lausna. 

Þá var Alan dulmálsgreinir á vegum bresku ríkisstjórnarinnar í seinni heimstyrjöldinni. Honum tókst að leysa Enigma, sem var dulmál Þjóðverja í stríðinu. Segja má að með uppgötvun Alans hafi stríðið snúist andstæðingum Þýskalands í hag.  Búin var til bíómynd um afrek Alans, sem gefin var út fyrir fimm árum. Myndin ber heitið The Imitation Game og naut mikilla vinsælda.

Skömmu eftir síðari heimstyrjöldina var Alan fundinn sekur um að eiga í ástarsambandi við karlmann. Hann var í kjölfarið dæmdur árið 1954 þar sem hann samþykkti m.a. að taka þátt í lyfjameðferð sem hægja átti á kynhvöt hans. Þess utan var honum meinað að starfa fyrir bresk stjórnvöld sökum kynhneigðar sinnar. Alan tók eigið líf skömmu eftir dómsuppkvaðningu. Hann hlaut náðun árið 2009.

Árið 2017 voru samþykkt lög í breska þinginu sem báru yfirskriftina „Lög Alan Turing“. Með þeim hlutu allir karlmenn, sem áður höfðu fundist sekir um framangreind brot á eldri lögum, náðun.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK