Vilja opna nýjan Mikkeller-bar í Reykjavík

Mikkeller & Friends á Hverfisgötu var rekinn síðan snemma árs …
Mikkeller & Friends á Hverfisgötu var rekinn síðan snemma árs 2015 í samstarfi við hið alþjóðlega bjórfyrirtæki Mikkeller. Ljósmynd/Mikkeller & Friends

„Við erum augljóslega ekki ánægð með að barnum okkar á Íslandi hafi verið lokað,“ segir Jacob Gram Alsing, rekstrarstjóri hjá bjórfyrirtækinu Mikkeller.

Mikla athygli vakti þegar þremur veitingastöðum í húsinu við Hverfisgötu 12 var lokað í síðasta mánuði. Þetta voru Dill, Systir og Mikkeller & Friends, en sá síðastnefndi hafði verið rekinn síðan snemma árs 2015 í samstarfi við hið alþjóðlega bjórfyrirtæki Mikkeller.

„Okkur sýnist að rekstraraðilar hafi tekið þessa ákvörðun út frá fjárhagslegum ástæðum. Við vitum auðvitað að það hefur verið erfitt árferði á Íslandi að undanförnu og rekstur barsins gekk ekki vel síðustu sex mánuðina,“ segir Jacob í samtali við mbl.is.

Þegar barinn var opnaður var kynnt að rekstur hans væri samstarfsverkefni Mikkeller, danska bjórfyrirtækisins To Øl og rekstraraðila Kex hostels í Reykjavík. Síðar var rekstri Kex-veldisins skipt upp og hópur undir forystu Kristins Vilbergssonar sá um rekstur staðanna þriggja við Hverfisgötu. Jacob staðfestir við mbl.is að Mikkeller hafi selt hlut sinn í Mikkeller-barnum til áðurnefnds hóps en hafi engu að síður áfram tekið þátt í rekstri hans. Allt fram á síðasta dag.

„Við höfum lokað börum áður og það er alltaf erfið ákvörðun að taka. Í þessu tilviki tekur þetta okkur sárt, við vorum sérstaklega ánægð með þennan. Þetta var einn best hannaði barinn okkar og við fíluðum andrúmsloftið þar.“

Hann segir að nú taki við vinna við að kanna grundvöll þess að opna Mikkeller-bar á Íslandi á ný. „Við viljum reka bar í Reykjavík og munum leita leiða til að opna á ný. Slíkt getur hins vegar tekið tíma, það getur tekið 3-4 mánuði eða nokkur ár að finna rétta staðinn og samstarfsaðila.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK