Fyrsta konan til að leiða Financial Times

Financial Times tilkynnti um ritstjóraskiptin á vefsvæði sínu fyrr í …
Financial Times tilkynnti um ritstjóraskiptin á vefsvæði sínu fyrr í dag. Skjáskot/Financial Times

Roula Khalaf mun taka við starfi ritstjóra breska viðskiptafjölmiðilsins Financial Times í byrjun næsta árs. Hún tekur við starfinu af Lionel Barber sem verið hefur ritstjóri síðastliðin 14 ár. Khalaf hefur frá árinu 2016 verið næstráðandi Barbers á blaðinu.

Hún hefur gegnt mörgum ábyrgðarhlutverkum á vettvangi fjölmiðilsins á síðustu árum, m.a. farið fyrir hópi fréttaritara á erlendri grundu og stýrt umfjöllun FT um þær hræringar sem orðið hafa í Mið-Austurlöndum á síðustu árum, bæði í tengslum við Íraksstríðið og Arabíska vorið. Hún kom fyrst til starfa hjá FT fyrir tæpum aldarfjórðungi.

Lionel Barber hefur verið ritstjóri Financial Times í 14 ár.
Lionel Barber hefur verið ritstjóri Financial Times í 14 ár. Ljósmynd/AFP

Í frétt á vefsvæði FT kom fram að Barber hefði ávarpað starfsmenn fyrirtækisins nú í morgun. Þar sagði hann að nú væri rétti tíminn til þess að láta Khalaf eftir ritstjórastólinn. Hún væri „sanngjörn, vitur og hörð í horn að taka“.

FT skilaði milljarðahagnaði í fyrra

Það kemur nú í verkahring Khalaf að halda merkjum FT á lofti. Fyrirtækið er nú í eigu Nikkei sem keypti það árið 2015. Undir forystu Barber hefur fyrirtækið náð undraverðum árangri og m.a. náð að snúa vörn í sókn þrátt fyrir minnkandi sölu í pappírsáskrift.

Á vefsvæði FT kemur fram að FT hafi skilað 25 milljóna punda hagnaði í fyrra, jafnvirði 4 milljarða króna og að tekjur þess hefðu numið 383 milljónum punda, jafnvirði nærri 62 milljarða króna. Þá standi áskriftir undir um 60% tekna FT og um 70% áskrifenda séu utan Bretlands.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK