Ásberg nýr framkvæmdastjóri Malbikunarstöðvarinnar Höfða

Ásberg Konráð Ingólfsson.
Ásberg Konráð Ingólfsson. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. hefur ákveðið að ráða Ásberg Konráð Ingólfsson í stöðu framkvæmdastjóra félagsins. 

Ásberg er 48 ára gamall verkfræðingur, með meistaragráðu í byggingaverkfræði frá University of Washington en sérgreinar námsins voru á sviði framkvæmda, flugvallargerðar og slitlagahönnunar. Þar áður, árið 1996, hafði hann lokið námi í byggingartæknifræði frá Tækniskóla Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Malbikunarstöðvarinnar Höfða.

Þar segir enn fremur að Ásberg hafi að loknu námi hafið störf á framkvæmdasviði VSÓ Ráðgjafar ehf. og unnið meðal annars við framkvæmdaeftirlit við gerð virkjana, flugvalla og hafnarsvæða. Á árunum 2002 til 2005 starfaði Ásberg hjá Orion Ráðgjöf við veghönnun og framkvæmdaeftirlit. Undanfarin ár hefur Ásberg starfað sem verkefnastjóri og ráðgjafi hjá VSÓ Ráðgjöf. Hann hefur haft umsjón með ýmsum verkefnum, m.a. fyrir Vegagerðina og Reykjavíkurborg, s.s. við brúargerð, slitlagsframkvæmdir, vega- og gatnagerð. Ásberg hefur einnig unnið við hönnun ýmissa mannvirkja og gerð kostnaðaráætlana fyrir framkvæmdir. Á árunum 2008 til 2016 sat Ásberg í slitlaganefnd norræna vegtæknisambandsins, NVF, hér á landi. Þá sat Ásberg um tíma í stjórn Stéttarfélags verkfræðinga og í samninganefnd félagsins.

Sambýliskona Ásbergs er Þórhildur Guðmundsdóttir verkfræðingur og eiga þau tvær dætur.

Þá kemur fram að ráðningarferlið hafi verið í höndum Intellecta.

„Starf framkvæmdastjóra var auglýst síðastliðinn nóvember. Ráðgert er að Ásberg taki við stöðunni 1. apríl næstkomandi en þá lætur núverandi framkvæmdastjóri Halldór Torfason af störfum sökum aldurs. Vill stjórn nota tækifærið til að þakka Halldóri hans góða starf í þágu fyrirtækins á liðnum áratugum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK