Ólafur Örn ráðinn til Opinna kerfa

Ólafur Örn Nielsen hefur verið ráðinn aðstoðarforstjóri Opinna kerfa.
Ólafur Örn Nielsen hefur verið ráðinn aðstoðarforstjóri Opinna kerfa. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Örn Nielsen hefur verið ráðinn aðstoðarforstjóri Opinna kerfa. Á síðastliðnu ári komu nýir fjárfestar að félaginu og Ragnheiður H. Harðardóttir tók við sem forstjóri þess.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að mótun á stefnu félagsins til framtíðar og er ráðning Ólafs liður í því að styðja við skipulagsbreytingar sem felast í því að Opin kerfi geti unnið í enn nánara samstarfi við fyrirtæki um rekstur upplýsingatæknimála segir í tilkynningu.

Ólafur hefur starfað á sviði upplýsingatækni í 15 ár við hugbúnaðarþróun, markaðsmál, stjórnun og rekstur fyrirtækja. Hann hefur síðustu misseri starfað sem stjórnunarráðgjafi með áherslu á stefnumótun og stafræna framtíð fyrirtækja.

Ólafur var framkvæmdastjóri hugbúnaðar- og ráðgjafafyrirtækisins Kolibri á árunum 2015-2019 en þar áður kom hann að stofnun hönnunarfyrirtækisins Form5. Þar áður var hann vefmarkaðsstjóri WOW air og hugbúnaðarsérfræðingur hjá mbl.is. Þá hefur Ólafur setið í stjórnum samtaka upplýsingatæknifyrirtækja og ÍMARK, félags markaðsfólks á Íslandi. 

„Það er mikill heiður að vera treyst fyrir þessu hlutverki. Það er spennandi áskorun að koma inn í Opin kerfi á þessum tímapunkti en fyrirtækið, eins og markaðurinn allur, er að ganga í gegnum miklar umbreytingar sem eru að mestu leyti drifnar áfram vegna tækniþróunar. Opin kerfi ætla sér stóra hluti og ég hlakka til að takast á við þá áskorun að skrifa nýja kafla við þá rótgrónu sögu sem félagið býr yfir, með því afburðafólki sem hjá félaginu starfar,“ segir Ólafur Nielsen nýr aðstoðarforstjóri Opinna kerfa, í fréttatilkynningu. 

„Það er mikill liðsstyrkur að fá Ólaf til starfa. Opin kerfi hafa markað sér skýra stefnu sem náinn samstarfsaðili fyrirtækja í rekstri upplýsingatæknimála og ráðning Ólafs er liður í að styðja við þá vegferð. Okkar markmið er að styðja markvisst við fyrirtæki í öllum atvinnugeirum að takast á við breytingar á sviði upplýsingatækni til að efla samkeppnishæfni sína,“ segir Ragnheiður Harðardóttir, forstjóri Opinna kerfa, í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK