„Ekkert í þessu lengur fyrir okkur“

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts.
Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum í raun og veru bara að endurhugsa fyrirtækið og stilla því upp á nútímamarkaði. Staðan í þessum efnum hefur breyst alveg gríðarlega mikið á tiltölulega skömmum tíma og það er náttúrulega ekki síst vegna þess að fólk er að verða sífellt meðvitaðra um umhverfið. Fyrir vikið eru svo margir sem eru farnir að afþakka fjölpóst.“

Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, í samtali við mbl.is, en fyrirtækið tilkynnti í morgun að það hygðist hætta að dreifa ónafnmerktum fjölpósti á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Selfossi og Akranesi frá og með 1. maí og að rúmlega 30 starfsmönnum hafi verið sagt upp störfum vegna þessarar breytingar. Þá kom fram að þessi breyting myndi leiða til um 200 milljóna króna kostnaðarlækkunar á ársgrundvelli.

Fjölpóstur hafi upphaflega verið hugsaður sem viðbótarþjónusta með útburði á bréfum og verðlagður sem slíkur. Með sífellt minni bréfpósti væri fjölpóstur í raun kominn í aðalhlutverkið. Þannig hefðu orðið endaskipti á málinu. Bréf færu kannski að meðaltali í um 30% af póstlúgum í hverju póstnúmeri en fjölpóstur í þær allar.

Viðskiptalegur grundvöllur brostinn

„Þannig að viðskiptalegur grundvöllur og verðlagning undir svona starfsemi eru algerlega brostin,“ segir Birgir. Þess utan væru sífellt fleiri farnir að afþakka fjölpóst þannig að mikið af fjölpósti kæmi aftur til Íslandspósts sem þyrfti að bera kostnað af því að farga honum. „Þannig að þetta passar einfaldlega ekki inn í módelið.“

mbl.is/ÞÖK.

Spurður um starfsmennina sem missa vinnuna vegna breytinganna segir Birgir að með þeim skapist einfaldlega svigrúm til þess að endurskipuleggja starfsemi fyrirtækisins í þessum efnum. Mikil bakvinnsla fylgdi til að mynda fjölpóstinum. Þeir sem missi vinnuna séu fyrst og fremst einstaklingar sem hafi verið að halda utan um hann.

Við þetta bætist einnig að dregið hafi úr notkun á fjölpósti. Meðal annars vegna aukinnar áherslu á netið sem auglýsingamiðils. Einnig sé gríðarlegur þrýstingur á verðlagninguna. „Þannig að það er einfaldlega ekkert í þessu lengur fyrir okkur í okkar módeli. Síðan eru önnur fyrirtæki með önnur módel þar sem þetta gengur betur upp.“

Spurður að lokum hvers vegna breytingarnar nái aðeins til suðvesturhorns landsins segir Birgir að það sé einfaldlega annar veruleiki í öðrum landshlutum. Bæði sé um að ræða minna magn og aðra „dínamík“. Færri sendi fjölpóst um allt land. „Ég hef talað um að það sé ákveðin stífla í kerfinu en hún er aðallega hérna í þéttbýlinu hér.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK