Tekjur Google undir væntingum

Hlutabréf í Google hafa lækkað í viðskiptum fyrir opnun markaða …
Hlutabréf í Google hafa lækkað í viðskiptum fyrir opnun markaða eftir að uppgjör fjórða ársfjórðungs var kynnt í gær. AFP

Verð hlutabréfa í Alphabet, móðurfélagi Google, hefur lækkað um 3% í viðskiptum fyrir opnun markaða vestanhafs í dag, en í gær kynnti félagið uppgjör ársins 2019. Niðurstöður fjórða ársfjórðungs voru undir væntingum, en tekjur félagsins voru 46,08 milljarðar dala miðað við 46,94 milljarða sem greinendur höfðu gert ráð fyrir.

Félagið breytti framsetningu sinni í þetta skiptið og eru nú tekjur meðal annars greindar betur. Þannig má sjá að tekjur vegna Youtube-myndbandsveitunnar voru 15 milljarðar dala á síðasta ári og tekjur vegna skýjaþjónustu voru 10 milljarðar. Sagði Sundar Pichai, forstjóri félagsins, að þetta væri til þess að gefa betri innsýn inn í rekstur félagsins.

Hækkuðu tekjur vegna Youtube um 36% frá fyrra ári og hafa þær næstum því tvöfaldast frá árinu 2017. Skýjaþjónustutekjur hækkuðu um 53% milli ára og hafa tvöfaldast frá 2017.

Þrátt fyrir lækkunina í dag hafa bréf í tæknirisanum hækkað um tæplega 30% á síðustu 12 mánuðum, umtalsvert yfir hækkun S&P 500 vísitölunnar, sem hefur hækkkað um 19,2%.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK