Flugáætlun Icelandair var takmörkuð en arðbær

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Arnþór

Þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru hefur Icelandair haldið uppi takmarkaðri en arðbærri flugáætlun í sumar og auk þess gripið mikilvæg tækifæri í fraktflutningum og leiguflugi. Félagið er í sterkari stöðu en búist var við þegar hluthafafundur fór fram 22. maí síðastliðinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair birti í gærkvöldi í tilefni þess að félagið birti kynningargögn fyrir fyrirhugað hlutafjárútboð í Kauphöll.

Hlutafjárútboðið lokahnykkur í fjárhagslegri endurskipulagningu

Þar kemur fram að fjárhagsleg staða félagsins hafi verið sterk í upphafi árs og undirliggjandi rekstur traustur. Í kjölfar faraldurs hafi verið brugðist hratt við með því að endurskipuleggja reksturinn og aðlaga hann að nýjum raunveruleika.

Jafnframt hafi verið gripið til ýmissa aðgerða til að styrkja lausafjárstöðuna og samhliða því hafi hafist fjárhagsleg endurskipulagning með það að markmiði að tryggja lausafjárstöðu og samkeppnishæfni Icelandair Group til lengri tíma.

Hlutafjárútboðið er lokahnykkurinn í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins ásamt samkomulagi við íslensk stjórnvöld um ríkisábyrgð á lánalínu að fjárhæð allt að um 16,5 milljarða króna sem nú liggur fyrir. Ábyrgðin er háð samkomulagi aðila um skilmála hennar, samþykki Alþingis og að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.

Viðskiptamódel Icelandair hafi margsannað sig

„Viðskiptamódel Icelandair Group hefur margsannað sig og við förum bjartsýn inn í það hlutafjárútboð sem nú er fram undan. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á félagið á liðnum mánuðum líkt og öll önnur flugfélög í heiminum.

Fjárhagsstaða félagsins var góð áður en faraldurinn skall á og í kjölfar þeirra aðgerða sem við höfum gripið til og þeirra áætlana sem við höfum gert til framtíðar, hefur félagið alla burði til að koma sterkt út úr honum.

Félagið býr yfir verðmætum innviðum, frábæru starfsfólki og mikilvægum viðskiptasamböndum. Þá er leiðakerfi Icelandair sveigjanlegt og byggir á einstakri staðsetningu Íslands sem tengimiðstöðvar á milli Norður-Ameríku og Evrópu,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK