Verulega hægir á íbúðafjárfestingu

mbl.is/Hari

Verulega hefur hægt á íbúðafjárfestingu hér á landi samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Íbúðafjárfesting dróst saman um 21% milli ára á öðrum ársfjórðungi þessa árs sem er mesti samdráttur sem hefur mælst síðan á öðrum ársfjórðungi ársins 2010. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Þar kemur jafnframt fram að þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem samdráttur mælist, en á fyrsta ársfjórðungi dróst íbúðafjárfesting saman um 5%. Þrátt fyrir þetta er uppbygging enn þá mikil og má áfram gera ráð fyrir fjölgun íbúða inn á markaðinn næstu misseri þar sem tíma tekur að klára mörg þeirra verkefna sem þegar voru hafin.

Alls var fjárfest fyrir ríflega 35 milljarða króna á öðrum fjórðungi þessa árs. Ef frá er talið tímabilið frá fyrsta ársfjórðungi 2019 til fyrsta ársfjórðungs 2020 er þetta mesta fjárfesting sem hefur átt sér stað á stökum ársfjórðungi síðan 2008. „Við sjáum því að þó svo að það hægi á íbúðafjárfestingu er engu að síður talsvert í byggingu. Það má því segja að við séum að ganga í gegnum uppbyggingarskeið sem er ekki ósvipað því sem átti sér stað á árunum 2006-2008 þegar að jafnaði var fjárfest fyrir tæplega 40 ma. kr. á hverjum ársfjórðungi, á verðlagi ársins 2019,“ segir í Hagsjánni.

Í nýbirtum tölum Hagstofunnar kemur í ljós að hafin var bygging á um 3.800 íbúðum í fyrra. Það mun vera mesti fjöldi á einu ári síðan 2007. Um síðustu áramót voru tæplega 5.300 íbúðir í byggingu og hefur sá fjöldi ekki verið meiri síðan í árslok 2009. 

Í Hagsjánni er rakið að hagvísar bendi til að hægja fari á uppbyggingu. „Við sjáum það greinilega þegar rýnt er í gögn um seldar nýbyggingar á höfuðborgarsvæðinu. Þær voru 15% fleiri á öðrum ársfjórðungi í ár samanborið við sama tímabil í fyrra. Aukið framboð kann að hafa ýtt undir verðlækkanir í einstaka tilfellum, og þar með aukið á vinsældir nýbygginga. Mest lækkaði verð á seldum nýbyggingum í miðbæ Reykjavíkur, um 7% milli ára, og þar var einnig mesta aukningin í sölu milli ára. Hversu margar nýjar íbúðir standa þó óseldar er óljóst sem stendur, en í vor, þegar síðasta talning Samtaka iðnaðarins fór fram, kom í ljós að óseldum nýjum íbúðum hafði fjölgað nokkuð sem gefur til kynna að markaðurinn sé að mettast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK