Útgjöld kínverskra ferðamanna áberandi minnst

Svissneskir ferðamenn eyddu mestu hér á landi árið 2019.
Svissneskir ferðamenn eyddu mestu hér á landi árið 2019. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildarneysla erlendra ferðamanna hér á landi nam 383,4 milljörðum á síðasta ári en af þeirri tölu voru útgjöld þeirra til íslenskrar ferðaþjónustu 322,1 milljarður eða um 84% af heildarútgjöldum þeirra hér á landi. Kemur þetta fram í Hagsjá Landsbankans.

Útgjöld Kínverja á hverja gistinótt voru áberandi minnst, 21,5 þúsund krónur, þrátt fyrir að um sé að ræða einn stærsta kúnnahóp íslenskrar ferðaþjónustu. Til samanburðar er meðaltalið 43 þúsund krónur.

Hæsta meðalneyslan á gistinótt var hjá Norðmönnum og nam 72,4 þúsund krónum en á eftir þeim koma Finnar með 59,7 þúsund og Kanadamenn með 54,6 þúsund. Í Hagsjánni segir að Skandínavíuþjóðirnar séu allar yfir meðaltali og að hluti af skýringunni sé að hlutfall neyslu þeirra vegna viðskiptaferða sé umtalsvert hærra en gengur og gerist hjá öðrum þjóðum.

Svisslendingar eyddu mestu í heild

Neysla Svisslendinga hér á landi á árinu 2019 nam 339,6 þúsund krónum á hvern ferðamann en næst á eftir voru Bandaríkjamenn með 210,3 þúsund. Þar á eftir komu Bretar með 191,7 þúsund krónur en minnstu eyddu Pólverjar, 26,6 þúsund krónum á hvern ferðamann. Svisslendingar hafa mælst eyðslusamastir síðan mælingar hófust hjá Hagstofunni, árið 2013.

Hin litla neysla Pólverja gæti skýrst af meðalfjölda gistinótta á hvern pólskan ferðamann á hótelum eða öðrum gististöðum, sem eru einungis 0,8 nætur. Finnar dvelja hér í næststystan tíma, 2,3 nætur.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK