„Tímabært að senda boltann yfir til atvinnulífsins“

„Því fleiri og sterkari sem stoðirnar eru, því betur er …
„Því fleiri og sterkari sem stoðirnar eru, því betur er efnahagslífið í stakk búið til að takast á við hvers kyns áföll og áskoranir,“ segir Sigurður Ragnarsson. Árni Sæberg

Sigurður Ragnarsson segir áhugavert að líta yfir þróun íslensks atvinnulífs undanfarin hundrað ár og skoða þær miklu breytingar sem urðu á lífskjörum landsmanna á sama tíma. „Fyrir einni öld voru Íslendingar í hópi fátækustu þjóða heims en okkur tókst að snúa því alveg við og erum núna í hópi auðugustu landa á jarðkringlunni. Þetta tókst okkur m.a. með því að nýta náttúruauðlindirnar; rafvæðast og leiða bæði heitt og kalt vatn inn á heimilin. Fyrir fimmtíu árum var aðeins ein meginstoð undir atvinnulífinu – sjávarútvegurinn – en þá tókum við að virkja fallvötnin til að skapa aðstæður fyrir orkufrekan iðnað og þannig bæta við einni stoð til viðbótar. Þriðja stoðin – ferðaþjónustan – náði síðan góðri fótfestu á undanförnum tíu árum. Fjórða stoðin er atvinnustarfsemi sem byggist á hugvitsdrifinni nýsköpun, og er sú stoð sem við þurfum að leggja ríka áherslu á að efla enn ferkar. Því fleiri og sterkari sem stoðirnar eru, því betur er efnahagslífið í stakk búið til að takast á við hvers kyns áföll og áskoranir.“

Fjárfesting sem stækkar þjóðarkökuna

Sigurður er forstjóri ÍAV og tók þátt í pallborðsumræðum á Iðnþingi. Var kastljósinu m.a. beint að fjármögnunarumhverfi nýsköpunar og segir Sigurður að þar hafi verið stigin mörg skref í rétta átt á undanförnum áratug. „Nú er svo komið að aðgengi að fjármögnun og styrkjum er orðið býsna gott. Vissulega má alltaf gera betur, en við erum að verða komin að þeim stað þar sem ríkið er búið að leggja sitt af mörkum og tímabært að senda boltann yfir til atvinnulífsins til að gera eins gott úr þessu fjármögnunarumhverfi og hægt er.“

Þætti Sigurði æskilegt að bankarnir og lífeyrissjóðirnir létu meira til sín taka á þessu sviði og hann minnir á að nýlega hafi stjórnvöld rýmkað heimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta í nýsköpunarverkefnum. „Vissulega er um áhættusama fjárfestingu að ræða og ekki hægt að stóla á að öll verkefnin verði arðbær. En þessir fjársterku aðilar verða líka að muna að það er þeim og okkur öllum til hagsbóta að þjóðarkakan stækki og þar mun nýsköpun af öllu mögulegu tagi gegna lykilhlutverki.“

Húðdropar og súkkulaði

Reynslan sýnir jafnframt að íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum vegnar oft ágætlega. Sigurður segir fyrirtæki á borð við Marel, Össur og CCP hafa rutt brautina og sýnt að íslensk fyrirtæki sem byggja á hugverkadrifinni nýsköpun geti orðið að alþjóðlegum stórfyrirtækjum sem eftirsóknarvert er að fjárfesta í. „Enda er íslenska sprotasamfélaginu núna að takast að laða til sín töluvert af erlendu fjármagni svo að upphæðirnar hlaupa á mörgum milljörðum króna árlega.“

Með hverju nýsköpunarfyrirtækinu sem gerir það gott verður leiðin greiðari fyrir þá sem á eftir fylgja og auðvelt að telja upp tiltölulega ung en mjög öflug fyrirtæki þessarar gerðar, sem skapað hafa fjölda dýrmætra starfa og stóraukið útflutningstekjur þjóðarbúsins. „Þetta eru fyrirtæki á borð við deCode og Alvotech í lyfja- og lækningageiranum, Primex og Kerecis í fæðubótar- og heilsvörugeira, Valka og Skaginn 3X sem framleiða fullkominn búnað fyrir sjávarútveg, Orf líftækni og Bláa lónið sem framleiða húðvörur fyrir alþjóðamarkað, svo dæmi séu tekin,“ segir Sigurður. „Gróskan er líka mikil í matvælageiranum og gaman að þeim árangri sem náðist t.d. hjá Siggi‘s Skyr í Bandaríkjunum sem varð að tugmilljarða fyrirtæki. Íslendingar eru í dag farnir að flytja út bjór, þó í litlum mæli sé, og ekki lítið afrek í ljósi þess að fyrir þremur áratugum var enginn bjór framleiddur hér á landi. Við eigum meira að segja fyrirtæki sem flytur út súkkulaði.“

Víðáttan kallar

Sigurð grunar að kórónuveirufaraldurinn hafi skapað sóknarfæri fyrir íslenskan nýsköpunariðnað og breytt hugarfari og áherslum fólks á þeim svæðum sem hingað til hafa talist suðupottar tækniþróunar og vísinda. „Ég held að margir sem hafa sest að í Kísildal og nágrenni vegna þeirra starfa sem þar er að finna hafi uppgötvað það í faraldrinum að nú á tímum skiptir návígið við þannig staði ekki öllu máli, og margt sem gerir land eins og Ísland að aðlaðandi kosti til að ráða sig til starfa eða setja fyrirtæki á laggirnar. Víðáttan, náttúran og hreina loftið er meðal þess sem við höfum fram yfir marga staði, að ekki sé talað um þau forréttindi að búa í öruggu og fjölskylduvænu samfélagi,“ segir hann. „Á sama tíma er meiri hreyfing komin á fjármagnið, og snjallir fjárfestar teknir að leita út fyrir hefðbundnu nýsköpunarkjarnana í leit að efnilegum verkefnum til að styðja við.“

Þekking íslenskra verkfræðinga útflutningsvara

Sigurður starfar í atvinnugrein þar sem varkárni og íhaldssemi ræður ferðinni, og það ekki að ástæðulausu. Byggingaiðnaðurinn er þó stöðugri þróun og segir Sigurður að framfarirnar og nýsköpunin sjáist vel þegar litið er yfir lengri tímabil. ÍAV fylgist náið með þróuninni og verður t.d. áhugavert að sjá hvort þrívíddarprentun með steypu muni koma við sögu í byggingarverkefnum framtíðarinnar, og hvernig umhverfisvænir orkugjafar verða nýttir til að knýja vinnuvélarnar.

„Fyrstu stórvirku vinnuvélarnar knúnar rafmagni hafa litið dagsins ljós en eru, enn sem komið er, svo dýr valkostur að myndi hafa neikvæð áhrif á samkeppnishæfni okkar. Við erum þó með rafknúin tæki víða, s.s. í malarnámu sem félagið starfrækir og notumst við jarðgangabor sem gengur fyrir rafmagni,“ útskýrir Sigurður. „Öllu styttra gæti verið í að við getum látið flutningabíla- og vinnuvélaflotann ganga fyrir vetni, metani eða metanóli. Settur hefur verið á laggirnar vinnuhópur um orkuskipti í okkar geira og líklegt að byrjað verði á að nota umhverfisvæna orkugjafa fyrir bíla sem ferðast eftir föstum leiðum, s.s. milli Akureyrar og Reykjavíkur, og geta þar gengið að ákveðnum innviðum vísum. Þarf að muna að okkar tæki eru í notkun um allt land og oft á stöðum þar sem erfitt er að nota annað en hefðbundið jarðefnaeldsneyti, enn sem komið er.“

Þá kom í ljós í niðursveiflunni eftir bankahrun að það hugvit sem hafði safnast upp í íslenskum byggingargeira átti erindi við alþjóðlegan markað. Sigurður minnir á að verkfræðistofurnar hafi margar átt velgengni að fagna í erlendum útboðum og þó að sókn þeirra út í heim hafi í fyrstu verið drifin áfram af sjálfsbjargarviðleitni og frosti á innanlandsmarkaði hafi með tímanum orðið til nýr og mikilvægur tekjustofn. „Verkefnin hafa verið af ýmsum toga og m.a. gaman að sjá hvernig tekist hefur að selja þá sérþekkingu sem hefur orðið til hér á landi í verkfræðigeiranum í kringum húsbyggingar, samgönguverkefni, jarðhitaverkefni og uppbyggingu háspennulína og vatnsaflsvirkjana. Varð þarna til sproti, byggður á hugviti og háu menntunarstigi, og veitir í dag nokkrum hundruðum Íslendinga atvinnu.“

Greinin birtist upphaflega þann 1. október í sérblaði Morgunblaðsins og Samtaka iðnaðarins um Iðnþing 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK