Nýsköpun verður drifkraftur hagvaxtar

„Með því að hafa fleiri egg í körfunni má draga …
„Með því að hafa fleiri egg í körfunni má draga úr sveiflum í hagkerfinu og dreifa áhættu betur,“ segir Sigurður.

Þema Iðnþings 2020 fór beint að kjarna málsins: setja þarf hugvitsdrifna nýsköpun í forgang á komandi árum og áratugum svo að íslenskt atvinnulíf geti vaxið og dafnað. „Það stóra verkefni sem við settum fram á þinginu í ár er að á næstu þremur áratugum mun þurfa að skapa um 60.000 ný störf hér á landi og það verður ekki gert öðruvísi en að virkja hugvitið í meira mæli,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Þemað á vel við nú þegar hagkerfi Íslands og öll heimsbyggðin virðist á leið inn í samdráttarskeið vegna þeirrar röskunar sem kórónuveirufaraldurinn olli. Sigurður segir að hugmyndin að umfjöllunarefni ráðstefnunnar hafi þó kviknað á síðasta ári, og var tilefnið þau óveðursský sem þá voru tekin að hrannast upp yfir íslensku efnahagslífi. „Hagkerfið var tekið að kólna og orðið nokkuð ljóst að ekki mætti vænta eins mikils vaxtar og áður hjá stóru útflutningsgreinunum þremur: ferðaþjónustu, sjávarútvegi og orkusæknum iðnaði. Stóra spurningin, sem enn á við, er þessi: hvað verður drifkraftur vaxtar á næstu árum og áratugum?“

Dreifir áhættu og minnkar sveiflur

Að sögn Sigurðar er brýnt að nýsköpun eigi sér stað sem víðast í atvinnulífinu: í öllum greinum og hjá nýbökuðum sprotum sem og hjá rótgrónum fyrirtækjum. Tækifærin megi finna alls staðar og æskilegt að íslenskt athafnafólk nái að koma fyrirtækjum sínum í fremstu röð á sem flestum og sem ólíkustum sviðum. Takist að gera stoðir atvinnulífsins fleiri og fjölbreyttari standi Ísland enn betur að vígi: „Með því að hafa fleiri egg í körfunni má draga úr sveiflum í hagkerfinu og dreifa áhættu betur,“ segir hann og minnir á að þegar þrjár stórar atvinnugreinar bera efnahag þjóðarinnar uppi að stórum hluta þá hafi hvers kyns skakkaföll og óvænt vandamál í þeim geirum víðtækari áhrif en ella.

„Þá er það mikilvægt verkefni að breikka tekjugrunninn og að fyrirtækin í landinu skapi sem mest verðmæti svo að við sem hér búum fáum áfram notið framúrskarandi lífsgæða. Þegar allt kemur til alls er hugvitsdrifin nýsköpun eina leiðin að því marki.“

Sigurður leggur á það áherslu að markaðurinn verði að velja sigurvegarana, enda viti enginn úr hvaða átt bestu hugmyndirnar munu koma. Þannig hefði eflaust engum dottið í hug fyrir þremur áratugum að í dag mætti finna tölvuleikja- og stoðtækjaframleiðendur í hópi öflugustu útflutningsfyrirtækja landsins. „En það fellur í hlut stjórnvalda að skapa þá hvata sem styðja við nýsköpun og móta atvinnustefnu sem miðar að almennum umbótum á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja þar sem horft er til þeirra fjögurra málaflokka sem mestu varðar fyrir framleiðni og samkeppnishæfni.“

Þeir fjórir málaflokkar sem Sigurður vísar til eru gott menntakerfi og mannauður; traustir innviðir; einfalt regluverk og hófleg gjaldtaka; og að lokum að umgjörð nýsköpunar sé á alla vegu með því besta sem þekkist. Hann segir að stjórnvöld hér á landi hafi unnið að umbótum í þessum málaflokkum á undanförnum árum en meira þurfi til og beita þurfi heildstæðri nálgun.

Stjórnvöld bregðist hratt við

Sem dæmi um mikilvægi úthugsaðs regluverks nefnir Sigurður að þegar gagnaveraiðnaðurinn fór að taka á sig mynd hér á landi, líkt og um heim allan, kom í ljós að þær reglur sem samdar höfðu verið um raforkumarkaðinn höfðu verið skrifaðar með þarfir tveggja notendahópa í huga: stórnotenda og almennra kaupenda. „Frumkvöðlar ráku sig á það að gleymst hafði að gera ráð fyrir raforkukaupendum sem lenda þarna mitt á milli, sem hafa aðrar þarfir og óskir en hinir hóparnir tveir.“

Sigurður bendir á að hér sé aðalatriði að stjórnvöld séu skjót að bregðast við og hlusti vel á þarfir atvinnulífsins. Finna megi mörg dæmi um lipurð og sveigjanleika í íslenskri stjórnsýslu, sem hafi greitt leið nýsköpunar, en jafnmörg dæmi þar sem kerfið var svo svifaseint að dýrmæt tækifæri fóru í vaskinn. „Undanfarinn áratug hafa stjórnvöld stigið mörg skref í rétta átt og bara á þessu ári að ýmis úrræði hafa verið innleidd til að hvetja til nýsköpunar. Framundan gæti verið áratugur þar sem við uppskerum ávinninginn af þessari stefnu,“ segir hann en minnir líka á mikilvægi þess að halda áfram á sömu braut, og að stjórnvöld og atvinnulíf verði samstíga. „Okkur hættir nefnilega til að gleyma okkur þegar mikill uppgangur á sér stað í ákveðnum greinum svo að öll athygli og orka leitar þangað, og áform um almennar úrbætur og almenna nýsköpun sitja á hakanum. Oft er það ekki fyrr en upp koma vandræði að ráðrúm gefst til að staldra við og dusta rykið af áformum um að reisa nýjar stoðir í atvinnulífinu.“

Efnileg fyrirtæki seld úr landi

Þessu tengt bendir Sigurður á að það sé áhyggjuefni hve mörg dæmi megi finna á undanförnum áratug þar sem öflugir íslenskir sprotar voru seldir úr landi svo að með þeim glötuðust bæði störf og verðmætasköpun. Stangast þetta á við þá leið sem farin var af eldri nýsköpunarfyrirtækjum sem í dag eru í hópi stærstu vinnuveitenda og verðmætustu fyrirtækja landsins. „Þetta eru fyrirtæki á borð við Össur og Marel sem komu sér upp höfuðstöðvum hér á landi og nutu liðssinnis fjárfesta til að vaxa út í heim með yfirtökum á öðrum fyrirtækjum. Þessi fyrirtæki hafa stækkað jafnt og þétt og með hverju skrefinu styrkt stöðu sína á fleiri mörkuðum og breikkað vöruúrval sitt. Bankarnir studdu dyggilega við vöxt fyrirtækja áður en það virðist ekki vera raunin í sama mæli nú til dags.“

Spurður hvað gæti skýrt að ný kynslóð íslenskra frumkvöðla sé ekki að fara sömu leið nefnir Sigurður að mögulega sé um breytt hugarfar að ræða en greina má svipað mynstur í Bandaríkjunum þar sem stofnendur og fjárfestar sjá það sem markmið í sjálfu sér að uppskera ávöxt erfiðis síns með því að selja sprota inn í stærri fyrirtæki. „En stærsti áhrifaþátturinn held ég að séu þær breytingar sem gerðar hafa verið á regluverki bankanna og takmarkað hafa getu þeirra til að veita íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum það fjármagn sem þau þyrftu til að vaxa út í heim. Bankarnir voru stórir hluthafar og lánveitendur í þeim félögum sem ég nefndi hér að framan og þess háttar viðskipti myndu ekki ganga upp miðað við þær skorður sem bönkunum eru settar í dag.“

Greinin birtist upphaflega þann 1. október s.l. í sérblaði Morgunblaðsins og Samtaka iðnaðarins um Iðnþing 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK