Íslandsbanki hagnaðist um 6,8 milljarða

Birna Einarsdóttir bankastjóri segist sátt við útkomuna í ljósi erfiðrar …
Birna Einarsdóttir bankastjóri segist sátt við útkomuna í ljósi erfiðrar stöðu víða í efnahagslífinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsbanki hagnaðist um 6,8 milljarða króna eftir skatta á árinu 2020. Hagnaðurinn dróst saman á milli ára, en hann var 8,5 milljarðar króna á árinu 2019. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans.

Arðsemi umfram áhættulausa vexti jókst milli ára og var 2,6% samanborið við 1,2% árið 2019. Útlán til viðskiptavina jukust um 107 milljarða króna eða 11,9% á árinu, en vöxtinn má aðallega rekja til húsnæðislána þar sem mikil spurn var eftir endurfjármögnun.

Stjórnunarkostnaður bankans dróst saman um 7,1% og nam 22,7 milljörðum króna. Stafar hún af fækkun starfsmanna, hóflegum launahækkunum og lækkun á flestum kostnaðarliðum, að því er segir í uppgjöri.

Hlutfall lánasafnsins, sem metið er með verulega aukningu í útlánaáhættu (stig 2), margfaldaðist milli ára og er nú 15,6% samanborið við 2,6% í lok árs 2019. Er það rakið til kórónuveirufaraldursins.

Íslandsbanki er alfarið í eigu íslenska ríkisins. Til stendur að selja fjórðungshlut í bankanum, en langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar er að selja allan hlut ríkisins.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. mbl.is/Golli

„Heimurinn allur þurfti að aðlaga sig breyttum aðstæðum á árinu og bregðast við yfirstandandi Covid-19-heimsfaraldri. Stafræn sókn var mikil á síðasta ári samhliða breyttum aðstæðum og kynnti bankinn meðal annars nýtt app fyrir fyrirtæki og rafræna undirritunarlausn. Mikil aukning var í stafrænum dreifileiðum bankans en mikil áhersla var lögð á að veita persónulega þjónustu til þeirra sem ekki höfðu tök á að nýta sér þessar lausnir,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur bankastjóra í tilkynningu.

„Við fundum það að aldrei hefur það verið jafn mikilvægt og í þessum aðstæðum að vera hreyfiafl til góðra verka og við erum stolt af því hlutverki. Bankinn heldur áfram að taka stór skref í sjálfbærnimálum en stefnt er að því að draga úr kolefnisspori tengdu rekstri bankans um 50% frá 2019 til 2024.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK