Sameinast undir merkjum Icelandair

Félögin sameinast undir nafni Icelandair.
Félögin sameinast undir nafni Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Unnið hefur verið að samþættingu starfsemi Air Iceland Connect og Icelandair í nokkurn tíma. Frá og með þriðjudeginum 16. mars næstkomandi munu leiðakerfi Air Iceland Connect og Icelandair verða að einu í leiðakerfi og sölu- og markaðsstarf sameinast undir vörumerki Icelandair. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Þar segir að vörur og þjónusta Icelandair, innanlands sem utan, verði þannig samræmdar og aðgengilegar á einum stað á www.icelandair.is.

Flugrekstrarleyfin áfram aðskilin

Flugrekstrarleyfi félaganna verða áfram aðskilin en eftir samþættinguna verða innanlands- og svæðisbundin flug á FI-flugnúmerum Icelandair. Þá stuðlar samþættingin að verulegum samlegðaráhrifum í rekstri félagsins, svo sem með sameiningu yfirstjórnar, stoðdeilda og kerfa samkvæmt fréttatilkynningu.

Sölu á Flugfrelsi hætt

„Áfangastaðir um allt land verða sýnilegri á heimasíðu Icelandair í gegnum eina leit, einn farmiða og tengingu við leiðakerfið í Evrópu og Norður-Ameríku. Þá mun tenging við Icelandair vörumerkið lyfta innlendum áfangastöðum upp alþjóðlega en vörumerki Icelandair er vel þekkt á lykilmörkuðum félagsins eftir áratuga uppbyggingu og fjárfestingu í sölu- og markaðsmálum.

Nú stendur yfir vinna við endurmat á vörum og þjónustu í innanlandsflugi. Eftir yfirfærsluna þann 16. mars næstkomandi verður sölu Flugfrelsis hætt og breytingar verða á skilmálum og þjónustu Flugkappa og Flugfélaga. Skilmálar útistandandi ferðainneigna sem keyptar eru fyrir yfirfærsluna eru óbreyttir en sú breyting verður á að þjónusta við viðskiptavini fer fram í gegnum þjónustuver Icelandair. Auk þess er unnið að þróun nýrra lausna sem kynntar verða á vormánuðum,“ segir í fréttatilkynningu.

Sömu áfangastaðir innanlands

Áfangastaðir Icelandair í innanlandsflugi verða eftir sem áður Akureyri, Egilsstaðir, Ísafjörður og Vestmannaeyjar. Þá hafa Air Iceland Connect og Norlandair átt í samstarfi um flug til nokkurra áfangastaða á Íslandi til viðbótar, svo sem til Bíldudals og Gjögurs frá Reykjavík, ásamt flugi til Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar frá Akureyri.

Hægt hefur verið að kaupa flugmiða á þessa áfangastaði í einum miða í gegnum bókunarsíðu Air Iceland Connect. Eftir samþættingu Air Iceland Connect og Icelandair breytist samstarf Norlandair við félagið þannig að flug á áfangastaði Norlandair verða einungis fáanleg á heimasíðu þess en ekki í gegnum bókunarsíðu Icelandair. Félögin munu þó áfram vinna þétt saman og engin breyting verður á þjónustu við farþega frá Akureyrarflugvelli né Reykjavíkurflugvelli. Þá vinna félögin að því í samstarfi við Vegagerðina að þeir farþegar sem nýta sér tengiflug Icelandair/Norlandair geti áfram nýtt sér Loftbrúarréttindi á þessum leiðum.

Vonast eftir fjölgun ferðamanna í innanlandsflugi

„Ég er sannfærður um að samþætting félaganna verði farsælt skref og muni stuðla að sterkara flugfélagi og betri flugsamgöngum. Íslendingar reiða sig á öflugt innanlandsflug og með þessu skrefi styrkjum við það enn frekar og ætlum okkur að bjóða samkeppnishæf verð og leggja áfram áherslu á persónulega þjónustu. Að því sögðu er um stórt og flókið verkefni að ræða sem við munum taka í nokkrum skrefum. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á góð samskipti við viðskiptavini og samtal við helstu hagaðila um land allt um hvernig við þróum innanlandsflugið áfram með þarfir og upplifun viðskiptavina okkar í huga.

Til lengri tíma litið, þar sem framboð innanlandsflugs verður nú áberandi í bókunarvélum Icelandair, standa vonir okkar til að með öflugri markaðssetningu og tengingu við leiðakerfi okkar í Evrópu og Norður-Ameríku takist okkur jafnframt að fjölga ferðamönnum í innanlandsflugi. Það myndi styrkja lykiláfangastaði okkar um allt land og skila sér til viðskiptavina okkar í aukinni tíðni og betri þjónustu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK