Eftirliti var verulega ábótavant

Ríkisendurskoðun telur að bregðast hefði mátt fyrr við rekstrarvanda WOW …
Ríkisendurskoðun telur að bregðast hefði mátt fyrr við rekstrarvanda WOW air. mbl.is/​Hari

Ríkisendurskoðun telur umhugsunarvert að Samgöngustofa hafi í einhverjum tilfellum haft viðskiptalega hagsmuni WOW air að leiðarljósi í ákvörðunartöku, fram yfir þau viðmið og sjónarmið sem gilda um eftirlit og aðhald.

Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fall WOW air, sem mbl.is hefur undir höndum.

Samgöngustofa er þar gagnrýnd fyrir að hafa ekki fellt flugrekstrarleyfi WOW air tímabundið úr gildi eða afturkallað það en reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins kveði á um skyldu stofnunarinnar til þess að gera slíkt, geti flugfélag ekki staðið við raunverulegar skuldbindingar.

Greip stofnunin ekki til þessara ráða þar sem hún taldi áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu raunhæfar og að veiting tímabundins leyfis gæti haft skaðleg áhrif á möguleika félagsins til að fjármagna sig.

„Það er álit Ríkisendurskoðunar að Samgöngustofu beri að beita þeim úrræðum sem kveðið er á um í lögum og reglum. Veiting tímabundins leyfis meðan á fjárhagslegri endurskipulagningu stendur hefur þann ótvíræða kost að vera gagnsætt formlegt ferli með upphaf og endi í stað þess að vera óformlegt og ótímabundið eins og raunin var með eftirlit með Wow air hf,“ segir í skýrslunni.

Gagnrýnd fyrir seinagang

Í maí 2018 varð ljóst að Wow air væri komið í fjárhagsvandræði og aflaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sér upplýsinga um framkvæmd eftirlits Samgöngustofu í kjölfarið. 

Starfshættir Samgöngustofu eru harðlega gagnrýndir í skýrslunni, þar sem fyrst er vikið að því að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið taldi eftirlitinu verulega ábótavant í byrjun september 2018 og gaf því fyrirmæli til Samgöngustofu um að hefja skyldi sérstakt eftirlit með WOW air vegna fjárhagslegrar stöðu þess.

Tveimur vikum síðar tilkynnti Samgöngustofa flugfélaginu að eftirlit með því væri hafið og um það segir í skýrslunni: „Ótækt er að stofnun veiti ráðuneyti sínu svo misvísandi upplýsingar ekki síst þegar ástandið var jafn viðkvæmt og raun bar vitni.“

Þá er tæpt á því að fjórir mánuðir hafi liðið frá því Samgöngustofa og ráðuneytið voru upplýst um vandræði félagsins þar til ráðuneytið sendi frá sér bein tilmæli til Samgöngustofu um að hafa sérstakt eftirlit með fjárhag félagsins en ráðuneytið hafði áður bent Samgöngustofu á mikilvægi þessa.

Áttu að herða eftirlit strax í maí

„Að mati Ríkisendurskoðunar var ástæða fyrir Samgöngustofu til að herða eftirlitið strax í maí 2018 þegar stofnunin fékk upplýsingar um erfiða stöðu Wow air hf. og að félagið gæti ekki staðið undir rekstri vetrarins kæmi ekki til nýtt fjármagn. Samgöngustofa þarf að bregðast við með fullnægjandi og skjótum hætti þegar upp koma vísbendingar um fjárhagserfiðleika flugrekanda,“ segir í skýrslunni.

Er einnig vakin athygli á því að á þeim tíma sem WOW air hafi verið þjóðhagslega mikilvægt fyrirtæki og flugfélagið stóð höllum fæti hafi risið ágreiningur milli Samgöngustofu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um hvað teldist fullnægjandi fjárhagseftirlit.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK