Sýn tapaði 231 milljón

Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar. mbl.is/RAX

Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn tapaði 231 milljón á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en á sama tíma í fyrra nam tap fyrirtækisins 350 milljónum króna. Tekjur félagsins lækkuðu um 33 milljónir milli ára og námu 4.962 milljónum á fyrsta ársfjórðungi í ár.

Rekstrarhagnaður fyrir skatta, fjármagnsgjöld og afskriftir nam 1.388 milljónum, en var 1.355 milljónir í fyrra. Fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar að munurinn skýrist af kostnaðarhagræðingu sem unnið hafi verið að á síðasta ári.

Aukin fjárfesting í sýningarrétti

Heildarfjárfestingar félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins námu 807 milljónum, en þar af var fjárfesting í sýningarrétti 576 milljónir. Til samanburðar var heildarfjárfestingin á sama tíma í fyrra 738 milljónir og 475 milljónir í sýningarrétti.

Eins og áður hefur verið greint frá skrifaði Sýn við lok ársfjórðungsins upp á sölu á óvirkum farsímainnviðum félagsins og var söluverðið 7,1 milljarður. Er væntur söluhagnaður vegna þess 6,5 milljarðar, en samhliða sölunni var gerður langtímaleigusamningur „sem tryggja mun áframhaldandi aðgang félagsins að hinum óvirku farsímainnviðum.“

Frekari sala innviða á árinu og endurkaup hlutabréfa

Í tilkynningunni er haft eftir Heiðari Guðjónssyni, forstjóra Sýnar, að árið í fyrra hafi verið ár viðsnúnings í rekstri, en árið í ár sé ár viðsnúnings í efnahag félagsins. Boðar hann jafnframt endurkaup hlutabréfa á árinu. „Við stefnum á meiri sölu innviða á árinu en nú þegar er ljóst að skuldirnar sem við tókum á okkur við kaup á eignum 365 verða greiddar upp á þessu ári auk þess sem mikið svigrúm myndast til endurkaupa hlutabréfa,“ er haft eftir honum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK