Vilja þróa grænan orkugarð á Reyðarfirði

Anna-Lena Jeppsson, verkefnisstjóri hjá CIP (sem sótti fundinn með fjarfundabúnaði), …
Anna-Lena Jeppsson, verkefnisstjóri hjá CIP (sem sótti fundinn með fjarfundabúnaði), Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Ríkarður Ríkarðsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun, við undirritun viljayfirlýsingarinnar. Ljósmynd/Landsvirkjun

Fjarðabyggð, Landsvirkjun og Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) hafa undirritað viljayfirlýsingu um að meta kosti þess að þróa grænan orkugarð á Reyðarfirði. 

Í fyrstu verða kannaðir kostir þess að framleiða rafeldsneyti með vetni á Reyðarfirði en einnig verður farið í að skoða og greina möguleg samlegðaráhrif við aðra starfsemi á svæðinu, að því er segir í tilkynningu. Þar verður m.a. horft til möguleika á orkuskiptum í sjávarútvegi og landflutningum, endurnýtingu varma til húshitunar á Reyðarfirði og notkun súrefnis við landeldi á fiski. Auk þessa verða kannaðir kostir til að afla orku á svæðinu fyrir mögulega starfsemi í græna orkugarðinum.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir bæjarfélagið stolt af því að horft sé til Fjarðabyggðar til uppbyggingar á slíkri starfsemi. „Það  er verulegur ávinningur fyrir allt samfélagið í að þróa nýjar lausnir í orkumálum og skapa þannig frekari tækifæri fyrir frumkvöðla til nýsköpunar og uppbyggingar nýrrar atvinnustarfsemi,“ er hat eftir bæjarstjóranum í tilkynningu.  

Kanna kosti framleiðslu rafeldsneytis á Íslandi

Landsvirkjun stefnir að kolefnishlutleysi árið 2025. „Baráttan við loftslagsvána kallar á þróun nýrra lausna sem gera orkuskipti möguleg og við viljum taka þátt í því. Vonir eru bundnar við að rafeldsneyti muni gera orkuskipti í skipasiglingum möguleg og við viljum kanna kosti þess að framleiða það hér á landi,“ er haft eftir Ríkarði Ríkarðssyni, framkvæmdastjóra Viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá Landsvirkjun. 

Hann segir þátttöku CIP í verkefninu einnig mikilvæga þar sem fyrirtækið kemur inn með mikla alþjóðlega þekkingu og reynslu af fjárfestingum í framleiðslu endurnýjanlegrar orku. CIP var stofnað árið 2012 af reynslumiklum stjórnendum úr danska orkugeiranum í samstarfi við danska lífeyrissjóðinn PensionDanmark. Sjóðir CIP eru með fjárfestingar um allan heim og eiga um 100 alþjóðlegir stofnanafjárfestar aðild að þeim.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK