Birna Ósk hættir hjá Icelandair

Birna Ósk Einarsdóttir.
Birna Ósk Einarsdóttir. mbl.is/Golli

Birna Ósk Einarsdóttir, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs hjá Icelandair Group, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu á næstunni, að því er fram kemur í tilkynningu.

Á Facebook greinir Birna frá því að hún flytji nú ásamt fjölskyldu sinni til Hollands þar sem hún tekur á nýju ári við starfi í framkvæmdastjórn APTM, dótturfélags flutningafyrirtækisins Maersk. 

„Birna Ósk tók við starfi framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs í febrúar 2019 eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri þjónustuupplifunar og framkvæmdastjóri stefnumótunar og viðskiptaþróunar frá því að hún hóf störf hjá Icelandair Group í janúar 2018. Birna Ósk mun áfram sinna starfi sínu hjá félaginu næstu mánuði og jafnframt aðstoða við yfirfærslu verkefna þegar þar að kemur,“ segir í tilkynningu.

Bogi þakkar Birnu fyrir 

Þar er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group:

„Ég þakka Birnu Ósk fyrir frábær störf og mikilvægt framlag til félagsins á undanförnum árum. Undir forystu hennar hefur sölu- og þjónustusvið Icelandair verið styrkt verulega þar sem upplifun viðskiptavinarins er í forgrunni. Þá hefur hún leitt mikilvæg verkefni í gegnum mjög krefjandi tíma. Ég óska henni til hamingju með nýtt tækifæri á erlendri grundu og alls hins besta í framtíðinni.“

Í tilkynningunni er haft eftir Birnu Ósk að síðustu ár hafi verið „mögnuð“. 

„Að takast á við miklar áskoranir með framúrskarandi fólki alls staðar í fyrirtækinu með það að markmiði að halda uppi merkjum Íslands alþjóðlega. Ég er þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir þessu mikilvæga hlutverki, fyrir samstarfsfólk mitt og fyrir þá reynslu sem ég hef öðlast á þessum tíma. Það er óneitanlega erfitt að kveðja en á sama tíma mun ég stolt fylgjast með félaginu taka flugið á ný inn í framtíðina.”

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK