Landsbankinn hagnast um 7,5 milljarða

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi var 7,5 milljarðar, en þar með er hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins orðinn 21,6 milljarðar. Þetta er umtalsvert meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra, en þá var hagnaður þriðja ársfjórðungs 4 milljarðar og fyrir fyrstu níu mánuði ársins 700 milljónir.

Ástæða þessa viðsnúnings má að miklu leyti rekja til betri stöðu fyrirtækja og heimila en gert var ráð fyrir í kjölfar faraldursins. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar vegna uppgjörsins.

Hreinar vaxtatekjur á þriðja ársfjórðungi hækkuðu örlítið á milli ára. Voru 9,6 milljarðar í ár en 9,4 milljarðar í fyrra. Gerist það þrátt fyrir að vaxtatekjur lækka um hálfan milljarð. En á móti lækka vaxtagjöld um 700 milljónir.

Hreinar þjónustutekjur hækka um hálfan milljarð, eða um 22%, á ársfjórðungnum og aðrar rekstrartekjur hækka um 3,8 milljarða. Viðsnúningurinn er þeim mun meiri þegar horft er til fyrstu níu mánaða ársins, en í fyrra var 13,9 milljarða tap af þeim lið. Í ár hefur hins vegar orðið 10,2 milljarða afgangur af þeim lið. Má það rekja til jákvæðra virðisbreytinga á eignum og hagnaði af fjáreignum, en í fyrra voru báðir þessir liðir neikvæðir.

Rekstrargjöld bankans hækkuðu um 300 milljónir á þriðja ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra og voru 5,97 milljarðar. Launakostnaður hækkar um 200 milljónir og það gerir annar rekstrarkostnaður líka.

Hagnaður bankans fyrir skatta nam á þriðja ársfjórðungi 9,4 milljörðum samanborið við 5,2 milljarða, en eins og fyrr segir var hagnaður eftir skatta 7,5 milljarðar samanborið við 4 milljarða á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að um 93% af nýjum íbúðalánum sem veitt hafa verið síðustu níu mánuði séu óverðtryggð. Þá séu tæplega 40% af nýjum lánum með fasta vexti.

„Afkoma bankans á þriðja ársfjórðungi og á árinu endurspeglar annars vegar góðan árangur í rekstri og starfsemi bankans og hins vegar betri stöðu í hagkerfinu,“ er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK