Einn heitur pottur á hverja 500 Íslendinga

Kristján Berg, eiganda búðarinnar Heitir pottar.
Kristján Berg, eiganda búðarinnar Heitir pottar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heitirpottar.is hefur verið valinn pottasali ársins þriðja árið í röð hjá Arctic Spas alþjóðlega pottaframleiðandanum. Að sögn Kristjáns Berg Ásgeirssonar, eiganda Heitra potta, hefur enginn annar hlotið titilinn tvö ár í röð hjá framleiðandanum en 190 söluaðilar keppast um titilinn ár hvert.

„Við erum að keppa á svolítið stórum markaði. Við erum að keppa við Þýskaland, Frakkland, England, Noreg, það búa allsstaðar miklu fleiri heldur en á Íslandi,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

„Þannig að já, þetta er svolítið eftirtektarvert í heiminum að við erum með söluaðila á Íslandi sem vinnur þrjú ár í röð, það hefur aldrei gerst hjá Arctic Spas og það er 35 ára gamalt fyrirtæki. Þetta er mjög stórt í pottaheiminum.“

Orðinn þekktur innan pottageirans

Kristján segir að við valið sé tekið tillit til íbúafjölda, hvað sé selt mikið af pottum á hvern haus. Síðan sé bilanatíðni og hvernig sé sinnt störfum við viðgerðir og annað slíkt einnig metið inn í.

„Við vorum til dæmis að bera okkur saman við Holland þar sem við erum með einn pott á hverja fimm hundruð einstaklinga á meðan að Holland er með einn pott á hverja fjögur þúsund. Pottamenning á Íslandi er rosalega stór.“

Samkvæmt Kristjáni Bergi Ásgeirssyni, eiganda heitirpottar.is, hefur enginn annar hlotið …
Samkvæmt Kristjáni Bergi Ásgeirssyni, eiganda heitirpottar.is, hefur enginn annar hlotið titilinn tvö ár í röð hjá framleiðandanum en 190 söluaðilar keppast um titilinn ár hvert. Ljósmynd/Aðsend

Kristján segist vera orðinn þekktur innan pottageirans og að þegar hann fari á pottasýningar erlendis viti margir hver hann sé.

„Það er heiður, maður áttar sig ekki á því fyrr en maður fer erlendis og það er rosalega mikið um það að fólk vilji selja mér potta til þess að ég geti selt frá þeirra fyrirtæki, það alveg streyma tölvupóstarnir.“

„Íslendingar elska heita potta“

Kristján segir að titillinn og verðlaunin gefi honum klapp á bakið fyrir árið. Hann segist vera fiskikóngurinn en að síðustu þrjú ár hafi hann verið valinn sem pottakóngurinn.

„Þetta er miklu stærra en fólk gerir sér grein fyrir, þetta er náttúrulega bara bransi og Íslendingar elska heita potta.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK