Haraldur virðist skjóta á Jack

Haraldur og Jack Dorsey.
Haraldur og Jack Dorsey.

Haraldur Þorleifsson, starfsmaður Twitter, virtist skjóta á Jack Dorsey, stofnanda og fyrrverandi forstjóra miðilsins, í tísti á Twitter í dag.

Haraldur hefur síðan eytt tístinu, en í því virtist gæta óánægju með að Dorsey hefði ekki staðið við bakið á starfsmönnum Twitter eftir yfirtöku auðkýfingsins Elons Musks.

Svo hljómaði tístið, á íslensku:

„Að byggja upp fyrirtæki snýst um að byggja upp hópa. Alvöru leiðtogi ver hóp sinn staðfastlega. Jafnvel eftir að hann hefur snúið sér að öðrum hlutum.“

Eða á ensku, eins og það var ritað:

„Building a company is about building teams. A real leader protects their team adamantly. Even after they've moved on to other things.“

Dorsey lét af störfum í lok nóvember á síðasta ári. 

Hatursskilaboð í innhólfið

Musk hefur gagnrýnt Vijaya Gadde, lögfræðing miðilsins, fyrir hennar þátt í þeirri ákvörðun að banna hægrisinnaðar fréttaveitur og Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta á Twitter.

Eftir þessa gagnrýni hafa ýmiss konar nettröll fyllt innhólf hennar af hatursskilaboðum.

Fyrr í dag lýsti Haraldur aðdáun sinni á Gadde og sagði hana flotta, hæfa og hugrakka.

Hóf störf á skrifstofunni á mánudag

Erlendar fréttaveitur hafa greint frá því að mikill titringur ríki meðal starfsfólks miðilsins vegna yfirtöku Musks, en vert er að nefna að Haraldur hóf störf á skrifstofu Twitter í New York nú á mánudag, að loknum langvinnum takmörkunum vegna faraldursins.

Eins og frægt er orðið samþykkti stjórn Twitter yfirtökutilboð Musks sama dag, en tilboðið hljóðar upp upp á 44 milljarða bandaríkjadala.

Keypti Ueno á síðasta ári

Twitter festi kaup á tækni- og vef­hönn­un­ar­fyr­ir­tæk­i Haraldar, sem nefndist Ueno, í janúar á síðsta ári. Haraldur stofnaði Ueno árið 2014. 

Musk hefur verið hávær á Twitter undanfarna daga og hefur lýst háleitum markmiðum um framtíð miðilsins, þar sem málfrelsi verði haft í fyrirrúmi.

Haraldur sagði í upphafi mánaðarins að sér líkaði illa við Musk.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK