Yngvi í framboðsslaginn

Ársfundur Frjálsa lífeyrissjóðsins fer fram í höfuðstöðvum Arion banka næstu …
Ársfundur Frjálsa lífeyrissjóðsins fer fram í höfuðstöðvum Arion banka næstu helgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yngvi Harðarson hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica gefur kost á sér í kosningu til stjórnar í Frjálsa lífeyrissjóðnum. Frambjóðendur til stjórnar eru fimm en kosið er um þrjú sæti. Rafræn kosning hófst nú á hádegi.

Analytica er ráðgjafar- og greiningarfyrirtæki með aðsetur í Síðumúla í Reykjavík.

Rafræn kosning til stjórnar fer fram 15.-22. maí. Kosningin hófst á hádegi í dag og stendur hún yfir til hádegis sunnudaginn 22. maí 2022.

Þetta er í fyrsta skipti sem rafræn kosning til stjórnar kemur til framkvæmda en hún fer fram viku fyrir ársfundinn sem haldinn verður 23. maí. Hingað til hefur stjórnarkjör verið bundið við mætingu á ársfund eða veitingu umboðs til þriðja aðila.

Sjóðfélagar Frjálsa lífeyrissjóðsins voru rúmlega 64 þúsund í lok árs 2021 en þá er átt við þá sem greitt hafa iðgjöld til sjóðsins og eiga þar réttindi. Fjöldi sjóðfélaga sem greiddi iðgjöld á síðasta ári losaði 23 þús. Allir 64 þús. sjóðfélagar eiga atkvæðisrétt.

Með víðtæka reynslu

Fram kemur í tilkynningu frá Yngva að bakgrunnur hans muni nýtast í verkefni fyrir sjóðinn.

Yngvi Harðarson.
Yngvi Harðarson. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef haft aðkomu að málefnum lífeyrissjóða um áratuga skeið, bæði fyrir lífeyrissjóðina sjálfa og fyrir stjórnvöld. Hvað lífeyrissjóðina áhrærir þá hef ég einkum komið að málum sem varða áhættu, ávöxtun og fjárfestingarstefnu sem og sinnt eftirliti með framfylgni eignastýringaraðila við fjárfestingarstefnu og árangri þeirra. Svipaðri vinnu hef ég einnig sinnt fyrir ýmsa aðra fagfjárfesta. Þá hef ég unnið áhættumat á mörgum af stærstu fjárfestingum hérlendis.

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða er það sem mestu ræður hvað varðar árangur til langrar framtíðar. Henni þarf því að gefa góðan gaum með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni og hækkaðri meðalævi sjóðfélaga.

Ég vonast til að kraftar mínir geti nýst sjóðfélögum Frjálsa lífeyrissjóðsins til þess að standa vörð um góðan árangur sjóðsins og hagkvæmni í rekstri hans. Fjárfestingarumhverfið framundan er krefjandi vegna breyttrar heimsmyndar, mikillar verðbólgu og vegna horfa á því að vextir hækki mikið bæði hérlendis og erlendis. Það er einnig von mín að kraftar mínir gagnist til að stuðla að faglegri umræðu um málefni sjóðsins, gagnsæi og sterkri ásýnd,“ segir Yngvi Harðarson í tilkynningu.

Nánari upplýsingar um ársfundinn og kosninguna má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK