Verkalýðshreyfingin geti lært af atvinnulífinu

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, ávarpar Viðskiptaþing 2022.
Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, ávarpar Viðskiptaþing 2022. Kristinn Magnússon

Ásakanir verkalýðshreyfingarinnar um valdníðslu, launaþjófnað og fleira eiga sjaldnast við rök að styðjast og með engum hætti er hægt að heimfæra slík vinnubrögð á íslenskt atvinnulíf í heild sinni.

Þetta sagði Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs og forstjóri heildsölunnar 1912 ehf., á Viðskiptaþingi sem nú stendur yfir.

Hann sagði að ásakanir á borð við þessar kæmu yfirleitt úr ranni verkalýðshreyfingarinnar og leiðtoga hennar sem hefðu gjarnan, án tilefnis, uppi stór orð um atvinnurekendur. Hann sagði að í stað þess að ætla að leggja atvinnulífinu línurnar gæti verkalýðshreyfingin frekar lært ýmislegt af atvinnulífinu.

Í ræðu sinni greindi Ari frá því að á liðnum árum hafi fleiri starfsmenn 1912 sagt upp en á fyrri árum, sem er þróun sem hafi komið honum og öðrum stjórnendum fyrirtækisins á óvart, því starfmannavelta félagsins hafi um lengri tíma verið lág. Hann sagði að tímarnir væru að breytast, fólk hefði hug á því að breyta til og að atvinnulífið þyrfti að taka mið af þeim breytingum sem eru að eiga sér stað, skapa gott starfsumhverfi, tryggja framþróun í starfi og svo framvegis. Þetta rímar við yfirskrift þingsins, Tímarnir breytast og vinnan með, og fjallað er um þau vatnaskil sem nú eiga sér stað á vinnumarkaði.

Ari fjallaði einnig um launaþróun síðustu ára og sagði það ekki ganga upp til lengri tíma að laun hjá hinu opinbera væru að hækka hraðar og meira en hjá einkaaðilum. Þar bæru stjórnmálamenn ábyrgð, og benti til dæmis á að Reykjavíkurborg væri nú að ráða 60 starfsmenn til að búa til rafrænar lausnir, á meðan ríkið hefði farið mun betri leið og átt viðskipti við einkaaðila til að byggja upp Stafrænt Ísland. Ari sagði þó að atvinnurekendur á einkamarkaði bæru ábyrgð á því að skapa skemmtilega og eftirsótta vinnustaði og greiða samkeppnishæf laun. Því væri það verkefni allra aðila að byggja upp spennandi vinnumarkað á næstu árum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK