Allt að tíu milljarða fjárfesting

Sundlaugin sem gert er ráð fyrir samkvæmt þeim kynningarmyndum sem …
Sundlaugin sem gert er ráð fyrir samkvæmt þeim kynningarmyndum sem sendar voru út.

Fyrirhugaðar framkvæmdir við hótel og afþreyingamiðstöð við Þorlákshöfn gætu hlaupið á tíu milljörðum.

Þetta segir Björn Gunnlaugsson, verkefnastjóri hjá Íslenskum fasteignum, í samtali við mbl.is. Hann segir þó erfitt að meta heildarumfang verkefnisins, þar sem það sé aðeins í startholunum. 

Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í lok næsta árs og að hótelið geti opnað sínar dyr vorið 2026.  

Sveitarfélagið Ölfus og Íslenskar fasteignir undirrituðu fyrr í dag viljayfirlýsingu um uppbyggingu á allt að 180 herbergja hóteli og afþreyingamiðstöð auk smáhýsa í Hafnarvík við Leirur í Þorlákshöfn.

Björn segir félagið sjá mikið af vannýttum tækifærum í Þorlákshöfn. Mikil uppbygging er á svæðinu í dag og gríðarlegir möguleikar felast í nálægð svæðisins við hafið.

Sandströnd vinsæl hjá ferðamönnum

„Það eru þarna ákveðin landgæði sem snúast að hafinu, gríðarlega sérstök sandströnd. Svartir sandar eru mjög vinsælir hjá ferðamönnum og eitt af þeim fallegu einkennum sem svæðið hefur, og samhliða því er þessi tenging við golfvöllinn sem þarna er. Það er gríðarlega miklir möguleikar fólgnir í því að þessi golfvöllur eigi eftir að þróast,“ segir hann

„Það er ákveðin ferðaþjónusta til staðar í Þorlákshöfn í dag sem getur átt heimili á þessum stað og á sama tíma þarf starfsemi golfklúbbsins framtíðarstaðsetningu og við höfum mikinn áhuga á því að staðsetja hana sem hluta af þessari uppbyggingu.“

Samkvæmt frumteikningum virðist hótelið eiga að byggjast upp í fjölda …
Samkvæmt frumteikningum virðist hótelið eiga að byggjast upp í fjölda sexhyrndra forma, en betri mynd má fá af umfanginu í myndbandinu. Þá verða einnig nokkur smáhýsi í næsta nágrenni.

Hefur ekki áhyggjur af námugrefti

Spurður út í fyrirhugaða uppbyggingu námugraftar í grennd við svæðið segist Björn ekki hafa áhyggjur af því nú, en það eigi eftir að koma í ljós hvernig sú starfsemi verði útfærð.

„Ég á ekki von á því í sjálfum sér að það hafi nein áhrif frekar en stórskipa umferð sem fer um Þorlákshöfn í dag. Hún er ákveðinn upplifunarþáttur."

Björn telur líklegt að áform um uppbyggingu ferðaþjónustu og námugröft komi til með að hafa áhrif á hvort annað og á endanum ná sameiginlegu jafnvægi. 

Innblástur frá stuðlabergi

Hönnun hótelsins er mjög nýstárleg og sækir innblástur í stuðlaberg, eins og sést á tölvugerðum myndum og myndbandi af hótelinu. Björn segir að lagt sé upp með að hótelið hafi útsýni yfir hafflötinn en þó sé í öruggri fjarlægð frá hafinu.

„Það verður grunnþemað en svo á eftir að koma í ljós í rannsóknum sem eiga eftir að fara fram varðandi jarðveg og sjávargang, hvar nákvæmlega það verður staðsett en það er verkefni sem er framundan hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK